Dísu veitt ráðning og Dísa missir marks

Tvær sögur af Stokkseyrar-Dísu

Dísu veitt ráðning

Ferðamaður nokkur kom einu sinni að Stokkseyri og bað Dísu að gefa sér að drekka. Hún gjörði það og spurði hann um leið hvort hann vildi ekki selja sér hestinn sem hann reið. „Það gjöri ég ekki,“ mælti hann, „því að þetta er minn bezti hestur; honum farga ég ekki.“ „Hvar ætlarðu að á í nótt?“ mælti hún. „Hjá Baugsstöðum,“ svaraði hann. Síðan kvaddi hann hana, hélt leiðar sinnar og tjaldaði hjá Baugsstöðum.

En hann þorði ekki að sofa um nóttina, heldur horfði út um tjaldið út eftir bökkunum. Þegar góður tími er liðinn sér hann að Dísa kemur utan bakkana og gengur beinlínis að hesti hans. Hann hleypur strax niður að sjó og út með honum til að vera í vegi fyrir henni. Bráðum sér hann hvar kerling kemur ríðandi og stefnir á hann. En hann ræðst þegar að henni og setur hana af baki; glíma þau svo um stund, en svo lauk að Dísa hafði miður. Þá leysir hann skóna af henni, gefur henni ráðningu með þeim. Þá mælti Dísa: „Þetta var mannlega gjört; kom þú til mín hvenær sem þú ert á ferð; þú munt varla hafa verra af því“ (Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 1, bls. 568).

Dísa missir marks

Bóndi nokkur bjó í Dvergasteini í Stokkseyrarhverfi og átti dóttur eina efnilega. Dísa bað hann um stúlkuna fyrir þjónustustúlku, en hann neitaði því þverlega og grunaði nú að hún mundi verða stórreið við sig. Einu sinni var það í rökkrinu að bóndinn fór að rífa rúm sitt sem var þversum fyrir baðstofugaflinum og setti það aftur saman annarstaðar í baðstofunni. Kona hans spurði hann hvað þetta ætti að þýða; hann kvað hana það engu skipta og sagði að hún skyldi sjá það næsta morgun. En þegar fólkið vaknaði um morguninn sá það að broddstafur einn mikill stóð inn um gluggann og langt niður í gólfið þar sem rúmið hafði staðið; og héldu menn að þetta mundi án efa vera af völdum Stokkseyrar-Dísu.

(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 1, bls. 567).

 

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.