Hörgslandsmóri kemur að Búlandi

Strönd í Meðallandi

Einn af þeim sem talið var að Hörgslandsmóri fylgdi var Eiríkur Steingrímsson á Fossi. Eiríkur þótti skemmtilegur maður og var auðfúsugestur hvar sem hann kom. Hann hafði afar gaman af að spila og dvaldi gjarnan á bæjum við þá iðju.

Einhverju sinni bar svo við á Búlandi í Skaftártungu að ein kýrin var nýborin. Var Vigfúsína (f. 1894) í fjósinu að fylgjast með kúnni og koma kálfinum upp í básinn til hennar, eins og venja var að gera. Þegar hún er búin að því opnar hún fjósið og lítur út. Sér hún þá hvar Eiríkur kemur inn Sund, fyrir neðan túnið. Bregður þá svo við að kýrin, sem var fullorðin og mesta rólyndisskepna, umhverfðist alveg, bæði bölvar og sparkar. Tók það Sínu langan tíma að róa skepnuna.

Eiríkur gekk til bæjar og dvaldi á Búlandi um nóttina. Um kvöldið var kýrin orðin alveg róleg. En um nóttina verður hún aftur snarvitlaus, svo að þau Sína og Davíð vinnumaður verða að vaka yfir henni lengi nætur. Taldi Sína að þarna hefði Móri sloppið inn í fjósið þegar hún opnaði dyrnar.

(Vilhjálmur Eyjólfsson hafði þessa sögu eftir sögn Þuríðar Sigurðardóttur frá Hátúnum í Landbroti. Guðmundur Óli Sigurgeirsson skráði, feb 2000. Óbirt handrit geymt á Héraðsbókasafninu á Kirkjubæjarklaustri.)

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin

Tengdar sögur

Strönd í Meðallandi
Allar sögurnar

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.

Strönd í Meðallandi
Allar sögurnar

Skatan í Þverá

Jón magnar upp skötu til að stýra landbroti á bökkum Þverár.