Jaðrakan

Mark er takandi á fuglum og þá ekki síst jaðrakan, lóu, lómi og hávellu

Fugl þessi hinn fagri mun óvíða finnast nema í Árnes- og Rangárvallasýslum. Einkum er hann alkunnur í Flóanum, Grímsnesinu og Holtunum. Áður fyrrum var Breiðamýri illfær mjög yfirferðar mönnum og fénaði, áður en áveitan kom til sögunnar, því að þar var hver keldan annarri verri, fenin og flóðin víða mjög og æði mörg. Lægi leið manna yfir ár eða læki voru þeir oft lengi að leita að vaði til að vaða yfir eða ráði, en fundu engin.

Þannig var maður nokkur, Markús gamli á Hellum, einu sinni að leita að vaði á Hraunsá. Brú var þar enn engin en plankar sem þar höfðu verið  höfðu flotið af í vorleysingunum um vorið eða sjávarflóði um veturinn.

Meðan Markús var að ganga fram og aftur með ánni og leitast við að komast yfir hana á vaði, kemur til hans fugl einn fljúgandi og segir fuglinn:

“Viddi-ví? viddi-ví?”

Þetta skildi Markús svo sem hann væri að segja: “Viltu fyrir?” – og kvað Markús já við því.

Sagði þá fuglinn: “Vadd´útí, vadd´útí!”

Markús lét sér það að kenningu verða, óð út í  en hakaði naumast vatnið, varð reiður við fuglinn og sagði:

“Hafðu skömm fyrir! Þú ert að narra mig, ófétið þitt!”

Sagði þá fuglinn: “Vaddu vodu? Vaddu vodu?”

“Ójá,” sagði Markús, “en það er ekki þér að þakka þótt ég hefði það af. ”

Sagði þá fuglinn: “Vidduði! Vidduði!” og tók þá Markús til að vinda sig og flaug þá fuglinn í brott og sagði:  “Ó hæ! Ó hæ! Ó hæ!

Oft þóttust menn hafa himin höndum tekið er þeir hittu fugl þennan á leið sinni yfir Flóann, því að þeir voru sannfærðir um að þvílíkur leiðtogi greiddi þeim veg yfir torfærur allar, enda höfðu þeir sannreynt hann að þeirri góðsemi við sig. Jaðrakan er oft uppi um öll tún að tína maðk en aðeins þá er regn er í vændum. Segir fugl þessi þannig til um veðrið og mun óhætt að trúa honum til að segja satt.

Um þessa spádómsgáfu jaðrakansins og málfæri hans vil ég segja þetta: Spádómsgáfa hans er hliðstæð því sem um önnur dýr má segja, eigi síður fugla en annarra. Þau eru oft nærfærin um þá hluti og finna það á sér ef veðrabreyting er nærri og má finna þess ótal dæmi, sum þeirra má jafnvel finna í því er hér verður sagt um þau efni.

Málfæri fugls þessa er og hliðstætt því sem vér mennirnir þykjumst geta ráðið af ýmsu “tali” annarra fugla er líkist ýmsum orðum í máli voru. Má þar benda á heiðalóuna er segir; “dýrðin, dýrðin,” svo og lóminn er segir: “ugga-tra, ugga-tra” (órækt merki um þurrk) og fleiri “orð” og enn má benda á hávelluna er segir: “áv-ra, áv-ra” þegar gott er sjóveður að morgni dag. Vill hún þá að menn ári báta sína, taki til áranna – og rói.

(Íslenskt þjóðsagnasafn. 4. bindi. Ólafur Ragnarsson, Sverrir Jakobsson og Margrét Guðmundsdóttir sáu um útgáfuna. Reykjavík, Vaka-Helgafell. Bls. 60)

 

 

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.