Kerlingin í Potti
Vestur af Bæjarholtinu í Kálfholti voru fjárhús þar sem heitir Pottur. Þar stóð fyrrum hjáleigan Pottur, einnig nefnd Vestur – Kálfholtshjáleiga. Í fyrndinni er sagt að kerling í koti þessi hafi komið heim að Kálfholti þegar allt heimafólk var við stekk. Stal hún þar vellheitum drafla úr potti er stóð á hlóðum og bar brott í svuntu sinni. Við þar brenndist hún svo mjög að hún sálaðist. Heimildir eru um að Pottur hafi verið í byggð um 1700 en líklega í eyði eftir það. Þar eru nú myndarlegar fjárhústættur en fjárhús þar voru aflögð þegar núverandi bóndi í Kálfholti, Jónas Jónsson kom að jörðinni 1965. Við Pott dóu tvö börn eftir að prestur braut á bannhelgi á Syðri Hömrum, sjá bls. —–. Huldufólksbyggð er talin nærri Pott og til marks um það voru sagnir um að þar hafi sést huldufólkskýr. (Örnefnaskrá Kálfholts, Jarðab. II, 361, JóJ, TóS) Ath. kýr huldufólks hafa sést við Pott, Tómas Steindórsson
Álög á grávíðihríslum
Í klettum ofan við Syðri Hamra eru tvær grávíðihríslur. Á þeim er sú trú að ekki mætti við þeim hreyfa. Sagt var að ef slitin væri af þeim grein þá dæi einhver á bænum og við hvert barn sem fæddist, yxi á þeim ný grein. Sögn er um það að prestur einn í Kálfholti hafi af rælni rifið grein af annarri hríslunni og haft í burt með sér, sennilega vantrúaður á þessi munnmæli. En svo bar við að er hann kom heim höfðu tvö börn hans beðið bana undir kletti í svonefndum Potti, vestan við Kálfholtsbæinn. Áttu þau að hafa verið þar að leikjum er steinn losnaði úr skorðum með dularfullum hætti og féll ofan á börnin. Frá þessu segir í örnefnaskrá Syðri Hamra og þar er bætt við: “Þetta er sannur atburður um lát barnanna.” Sagt er að huldufólk búi í klettunum fyrir ofan Syðri Hamra og oft hafa sést þar ljós þegar skyggja tekur. Um miðja 20. öld var plantað Reyni og Birki framan við klettana þar sem grávíðihríslurnar vaxa og landið afgirt. Hríslurnar hafa á seinni árum átt örðugt uppdráttar vegna grjóthruns í brekkunni þar sem þær vaxa en þó lifir enn einn angi þeirra, litlu vestar en sá staður þar sem upphaflegu hríslurnar uxu. Að sögn Gísla Ástgeirssonar bónda á Syðri Hömrum voru hríslur þessar áður fullkomnlega varðar fyrir beit vegna þess að fé komst ekki að þeim í bröttum hamrinum. (Örnefnaskrá Syðri Hamra, GiÁ)