Í landi Kálfholts eru vatnslindir tvær skammt vestur af kirkjunni, sunnan undir svonefndu Vesturtúni. Þær heita einu nafni Bleikja og vatn úr henni talið hafa lækningamátt. “Er mælt að Galtastaðir í Gaulverjabæjarhreppi hafi verið gefnir Kálfholtskirkju fyrir meinabót er vatnið úr Bleikju veitti eiganda jarðarinnar.” Fram á sjöunda áratug 20. aldar var vatn úr efri lindinni notað til neyslu í Kálfholti og var vatnshrútur í lindinni sem dældi því heim á bæ.
(Örnefnaskrá Kálfholts, JóJ)