Magnús ríki í Sandaseli

Magnús ríki Magnússon (1801-1890) frá Skaftárdal bjó í Sandaseli (1827-1871) og er talinn hafa efnast vel á búskap sínum þar. Hér segir Gísli Tómasson (1897-1990) frá Melhól í Meðallandi frá honum.

Magnús á Skaftárdal var sagður harðdrægur, að minnsta kosti á ferjutollinn þegar hann var að ferja yfir fljótið. Hann var fyrsti maðurinn sem byggði í Sandaseli. Bæirnir stóðu upphaflega allir úti á Söndum, á hólmanum þar úti í vatninu, nema Rofabær, sem alla tíð hefur verið austur frá og stóð eiginlega í Nýjabæjarlandi. Svo var Ströndin byggð úr Rofabænum. En hinir bæirnir voru allir úti á Söndum.

En svo dreymdi Magnús þennan að það kom til hans kona og hún sagði honum það að ef hann vildi verða ríkur skyldi hann flytja bæinn austur fyrir lækinn. Þá var eiginlega ekkert austurfljót á milli heldur bara lækur, sem gengið var yfir á klakastíflum. En svo gróf fljótið sig í þennan farveg og komst á milli bæjanna Sanda og Sandsels. En Magnús fór eftir drauminum og flutti sig austur yfir lækinn og varð svona forríkur maður af öllu saman. Mun það nú mest hafa verið fyrir veiðina í fljótinu, sel og silung, sem þá var mikið af. En Sandasel var slægjujörð með afbrigðum góð og þar mjólkuðu kýr feikilega vel og fé var alveg í lagi þar.

Frásögn Gísla Tómassonar.Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í maí 1984 (SÁM 93/3432): https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1040538

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.