Hér segir Þorbjörn Bjarnason (1895-1971) frá ýmsum atburðum sem átt hafa sér stað í Skaftá og nágrenni hennar.
Það var ekki gott að bjarga sér úr Skaftá. Einu sinni var það að Guðmundur Þorleifsson í Skál og Vigfús Eyjólfsson frá Á voru á ferð í fjallinu í miklum snjó. Þá var það í svokölluðu Háaleiti að þegar þeir komu út í eina fönnina þá hljóp hún, og snjóflóðið tók Vigfús og fleytti honum niður í á. En það vildi til að snjóflóðið rak eftir ánni og brotnaði svo utan af honum á eyri. Hann gat þá vaðið vestur yfir ána og svo fór að Guðmundur sótti hann því hann var harðgerður maður þótt hann væri nú ekki stór.
Guðmundur Ásmundsson frá Lyngum í Meðallandi [d. 1925] drukknaði í Skaftá. Guðmundur var að heimsækja kærustuna sem bjó á Á á Síðu. Það var ís á ánni og skarir og hann ætlaði að stökkva á milli skara en fór þá í vatnið. Þetta var röskleikamaður.
Séra Sigurður Jónsson á Prestbakka drukknaði í Skaftá, austur af Ásgarði. Hann fór niður um ís.
Úr Skaftá kom oft eins og hátt nautsöskur. Og þetta kom helst á undan losatíð. Ég heyrði þetta tvisvar sinnum, það var mjög hátt, það kvað við í hömrunum.
Sagnir Þorbjörns Bjarnasonar (SÁM 90/2309; 90/2309; 90/2336). Viðtöl Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í júní og október 1970 sjá https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1012419; https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1012479; og https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1012810