Slysfarir í Skaftá

Skaftárbrúin við Klaustur

Skaftá var fyrst brúuð við Klaustur 1903. Ekki vitað hvenær þessi mynd er tekin en ljósmyndarinn er sennilega Helgi Lárusson. (Eig. Vegagerðin)

Hér segir Þorbjörn Bjarnason (1895-1971) frá ýmsum atburðum sem átt hafa sér stað í Skaftá og nágrenni hennar. 

Það var ekki gott að bjarga sér úr Skaftá. Einu sinni var það að Guðmundur Þorleifsson í Skál og Vigfús Eyjólfsson frá Á voru á ferð í fjallinu í miklum snjó. Þá var það í svokölluðu Háaleiti að þegar þeir komu út í eina fönnina þá hljóp hún, og snjóflóðið tók Vigfús og fleytti honum niður í á. En það vildi til að snjóflóðið rak eftir ánni og brotnaði svo utan af honum á eyri. Hann gat þá vaðið vestur yfir ána og svo fór að Guðmundur sótti hann því hann var harðgerður maður þótt hann væri nú ekki stór.

Guðmundur Ásmundsson frá Lyngum í Meðallandi [d. 1925] drukknaði í Skaftá. Guðmundur var að heimsækja kærustuna sem bjó á Á á Síðu. Það var ís á ánni og skarir og hann ætlaði að stökkva á milli skara en fór þá í vatnið. Þetta var röskleikamaður.

Séra Sigurður Jónsson á Prestbakka drukknaði í Skaftá, austur af Ásgarði. Hann fór niður um ís.

Úr Skaftá kom oft eins og hátt nautsöskur. Og þetta kom helst á undan losatíð. Ég heyrði þetta tvisvar sinnum, það var mjög hátt, það kvað við í hömrunum.

Sagnir Þorbjörns Bjarnasonar (SÁM 90/2309; 90/2309; 90/2336). Viðtöl Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í júní og október 1970 sjá https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1012419; https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1012479; og https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1012810 

 

 

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.