Ég get sofið í hvaða kofa sem er

Húsaröðin á Hnausum

Húsin á Hnausum. (Ljósm. LM)

Það var reimt á Hnausum sem kemur ekki á óvart því sennilega var austurendi bæjarins byggður á kirkjugarði.

Þegar grafið var fyrir íbúðarhúsinu á Hnausum var komið niður á forna gröf undir norðausturhorni hússins, beint undir þar sem eldhúsborðið stendur nú. Sennilegt er að til forna hafi verið bænhús og grafreitur á Hnausum og gæti gröfin hafa verið í þessum grafreit. Ekki er ólíklegt að gamalt eldhús sem sem rifið var 1951 og stóð austsuðaustan við núverandi bæ, hafi að stofni til verið þetta forna bænhús. Það sneri eins og kirkja

Áður stóð forn skáli hér norðan við bæinn. Ég man eftir honum, hann var þá notaður sem hlaða, ég man eftir þegar hann var rifinn, það var 1927 og grjótið úr honum var notað til að hlaða hérna þegar var verið að reyna að stöðva sandinn. Í austurhlutanum í þessum gamla skála átti að vera reimt. Sigvaldi sálugi sagðist geta sofið hér í hvaða kofa sem væri. En hann hafði eftir Stefáni heitnum: “Ekki í austurendanum á baðstofuhlöðunni karltetur.” Ég hélt nú að væri þar eitthvað þá mundi það nú ráfa um alla hlöðuna. Skálinn hefur náttúrulega verið óskaplega gamall, hann var byggður fyrir Skaftáreld, og þessi sögn bendir til að fyrst þegar hann var byggður hafi menn haft vitneskju um að austurendinn á honum hafi náð í kirkjugarðinn.

(Eftir sögn Vilhjálms Eyjólfssonar á Hnausum. Skrásetjari: Guðmundur Óli Sigurgeirsson feb. 2000 Óbirt handrit geymt á Héraðsbókasafninu á Kirkjubæjarklaustri.)

 

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir á Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.