FRÁ SÉRA EIRÍKI í VOGSÓSUM
(um 1638—1716)
Um séra Eirík í Vogsósum eru geysimargar sögur og missagnir. Úr Selvogi, sveit séra Eiríks, eru sögurnar beztar og einkennilegastar. Séra Magnús Grímsson hefur og ritað margar sögur um séra Eirík „eftir sögn og handritum Brynjólfs Jónssonar skólapilts frá Hruna með samanburði við almannasögn manna úr Borgarfirði. Eiríkur var forn í skapi og fjölkunnigur, gekk hann mjög í hóla og gjörði marga hluti undarlega; engum gjörði hann illt með kunnáttu sinni, en smáglettinn var hann, helzt ef á hann var leitað að fyrra bragði. Það var siður Eiríks að hverfa frá bænum á hverju laugardagskveldi og koma eigi aftur fyrr en á sunnudagsmorgnana. Ekki vissi neinn maður hvað hann var að sýsla í ferðum þessum“ (Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 1, 554).
Einu sinni hvarf Eiríkur prestur og vissi enginn hvar hann var um nokkra daga. Á meðan vóru piltar tveir sem vóru til kennslu hjá honum sendir fram í kirkju. Og er þeir Ijúka upp sýnist þeim Eiríkur prestur liggja höfuðlaus á gólfinu. Annar vill þreifa á honum, en hinn þverbannaði það. Degi síðar kom Eiríkur aftur og þakkaði hann piltinum fyrir að hann lét hann ósnertan, kvaðst hafa farið á gandreið á Vestfjörðu að finna kunningja sína. „Hefði ég nú verið snertur, þá hefði ég aldrei komizt í samt lag aftur“ (Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 1, bls. 559-560)[/vc_column_text][/vc_column][/vc_row]