Kölski gaf skólapilti næmi

Skólapiltur gerir samning við kölska um námsgáfur. Sex árum síðar átti hann að gjalda kölska greiðann. Hann bauð kölska að drakk vígt vín úr kaleik. Það leist kölska ekki á og þurfti hann því ekki að gerast skrifari kölska eins og um var samið.

Einu sinni var skólapiltur í Skálholti sem var svo tornæmur að hann gat ekkert lært. Biskupi þótti það mjög bágt því pilturinn var skyldur honum og var enda viljugur að læra, svo biskup elskaði hann og vorkynnti honum ef hann yrði að hætta. Hann tók það til ráðs að hann sendi piltinn utan til vinar síns sem var skólakennari á Þýzkalandi. Þar var pilturinn um tíma og gekk honum ekki betur en áður, og sagði kennarinn honum að hann sæi ekki annað ráð en senda hann til Íslands aftur því hann gæti ekki lært.

Piltinum féll það þungt og fór að reika út um stræti í þungum þönkum. Þá kemur til hans maður og spyr hann hvort hann geti ekki lært. Hann sagðist ekki geta það. „Ef þú vilt koma til mín fyri skrifara að sex árum liðnum, þá skal ég mæla svo fyrir þér að þú skalt geta lært.“ „Það mundi ég vilja vinna til,“ segir pilturinn. „Reyndu þá,“ segir hinn, „hvurt þér gengur ekki betur eftir þetta.“ Þeir skilja nú og fer pilturinn inn í skólann og nú getur hann lært. Líða nú stundir og gengur honum betur en öllum öðrum. Kennarinn tók eftir því og spurði hann hvurnig á því stæði. Hann sagði allt sem var. Þá sagði kennarinn: „Sá sem þín kom hefir verið kölski, og er mitt ráð að þú farir til Íslands aftur sem fyrst.“

Og það varð að hann fór til Íslands og í Skálholtsskóla aftur og gekk honum enn vel að læra. Hann sagði biskupi frá hvurnig komið var og hvað kennarinn hefði ímyndað sér um þenna mann. Biskupi þótti það ekki ótrúlegt að hann hefði getið rétt til. Pilturinn útskrifaðist áður en mörg ár liðu, en ekki vildi biskup að hann færi frá sér fyrr en sex ár væri liðin frá þeim degi sem samningurinn var gjörður. Seinasta daginn í þessum sex árum kallaði biskup á piltinn út í kirkju á áliðnum degi, leiðir hann fyrir altarið og færir hann í messuskrúðann, helgar vín á kaleiknum og fær honum og sagði: „Hér skaltu standa í alla nótt og víkja ekki fet frá altarinu, því í nótt mun kölski vitja þín, en farðu með engum sem til þín kemur þó þú verðir lokkaður til þess nema því aðeins hann drekki úr kaleiknum.“ Síðan fer biskup frá honum.

Nú líður þangað til dimmt er orðið. Þá kemur sá sem áður samdi við piltinn og segir: „Illa hélztu orð þín við mig að þú straukst hingað aftur.“ „Ekki var ég sjálfráður í því,“ segir pilturinn, „en kaup okkar má enn standa ef þú drekkur þessa skál með mér til staðfestu,“ og drekkur honum til af kaleiknum. Hinn varð reiður og sagði hann þyrfti ekki að setja sér afarkosti. „Ég get haft nógan liðsafla til að taka þig nauðugan ef þú vilt ekki koma viljugur eins og þú lofaðir.“ „Það er enginn afarkostur,“ segir pilturinn, „þó þú drekkir með mér úr bikarnum, það er vináttumerki okkar.“ Hinn anzar því ekki, en segir: „Komi hér mínir þjónar.“ Allt í einu kom í kirkjuna ótal púka sem voru ógurlegir að sjá. Þeir fylltu kirkjuna nema gangrúm var utar eftir gólfinu og þó mjótt. Þessi her hafði svo óttaleg læti að pilturinn varð hræddur og ætlaði að setja kaleikinn af sér á altarið og hlaupa út sem skjótast. Í því heyrir hann að biskupinn kallar utar í kirkjunni: „Stattu kyrr á fótunum, maður. Það er opið helvíti fyrir þér.“ Þá sneri hann sér að altarinu og byrgði fyrir augu sér og baðst fyrir. Ólætin vöruðu til dags og stóð pilturinn kyrr eftir þetta þangað til í dögun; þá hringdi biskup og þá hvarf allur flokkurinn.

Biskup gengur þá til piltsins og drakk af kaleiknum, færði piltinn úr messuklæðunum og leiddi hann inn og sagði að honum mundi nú vera óhætt héðan í frá, og það varð líka. Síðan vígði biskup hann til prests og veitti honum gott brauð og varð hann ágætismaður

(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 4, bls. 63-64 ).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.