Ekki mátti slá nærri huldubyggðinni. Það fékk Mensalder bóndi að reyna og missti hann sjö ær af bústofni sínum.
Mikil huldubyggð var áður talin vera í Húsabrún og Kumlholtsklettum, en þessir staðir eru stutt austan við Þjórsárbrú, neðan við þjóðveginn. Húsar heita lítið býli á þessum slóðum, nú í eyði. Tóftir torfbæjarins sem þarna var búið í til 1972 eru samt greinilegar og austan við þær er sléttur og grasgefinn hóll sem heitir Fjóshóll. Milli hans og bæjar er aðeins mjó vagnbraut. Ekki mátti hreyfa við hól þessum en það mátti slá hann. Rétt við Húsatún er klettastapi kallaður Fjárhúsklettur og þýfður mýrarslakki sem telur aðeins örfáa fermetra milli túns og kletts, Huldumýri. Hana mátti aldrei slá. Mensalder Raben Mensalderson frá Moldartungu hóf búskap í Húsum 1938. Fyrsta sumarið sló hann mýri þessa enda vissi hann ekki um álögin sem á henni hvíldu. Veturinn eftir missti hann sjö ær af litlum bústofni sínum og þótti það harður dómur fyrir fátækan bónda að missa sjö ær fyrir þá sjö bagga af heyi sem hann fékk af mýrinni.
(HH1, Örnefnaskrá Húsa, ErRa)