Huldufólk hefnir sín

Huldufólkið við Kálfafellskot gat verið hefnigjarnt ef gert var á hlut þess. Hér segir Guðrún Filippusdóttir frá Kálfafellskoti frá einu slíku tilfelli.

Einu sinni var hjá okkur maður, eða hjá pabba og mömmu, ég var þá barn á þriðja ári held ég. Hann veikist svo óskaplega um vorið. Þetta var rétt um þann tíma sem verið var að reka inn féð til að rýja. Hann fær svo mikinn verk í höfðið að hann hefur ekkert nokkurt viðþol, og liggur þarna í 16 vikur og er alveg friðlaus allan tímann. Svo deyr hann. Þá dreymir mömmu nokkru seinna að það kemur til hennar huldukona og segir við hana: ,,Þú þarft ekki að furða þig á því, Þórunn mín, þótt að hann Jóhann tæki mikið út í höfðinu, því að þegar þið voruð að reka inn í vor til að rýja þá tók hann upp stein og ætlaði að henda honum fyrir lamb, en þá bara lendir það í höfðinu á einu barninu mínu og það dó. Og fyrir það drap ég fingri á ennið á honum og af því hafði hann þennan mikla höfuðverk“

(Eftir sögn Guðrúnar Filippusdóttur. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í september 1970 (SÁM 90/2325): https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1012659

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir á Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.