Að sjá þjóf

Gesturinn sýndi bónda hvernig væri hægt að sjá þjófinn. 

Vetur einn, rétt fyrir jól, var stolið sauðarsteilum úr eldhúsrjáfri hjá Sæmundi bónda Bjarnasyni á Vatnsskarðshólum. Sæmundur hélt því lítt á lofti og grennslaðist ekki eftir um þjófinn fyrst um sinn. Vita þóttist hann að bláfátækur nágranni hans hefði gert þetta. Síðla þennan vetur bar gest að garði hjá Sæmundi og baðst gistingar. Maðurinn var einhvers staðar úr miðhluta Rangárvallasýslu.

Sæmundi þótti gott að spjalla við gest sinn, og gesturinn var margfróður. Meðal annarra málefna, sem á góma bar, var hvernig komast mætti að því hver stæli frá manni. Gesturinn sagði mjög auðvelt væri að finna hvaða helst þjóf sem væri. Sæmundur sagðist hafa misst lítinn hlut rétt fyrir jólin og spurði hvort gesturinn gæti nú bent sér á þann, sem hlutinn hefði tekið. Gesturinn bað hann að sýna sér hvar hlutur sá hefði verið, og sýndi Sæmundur honum það.

Gesturinn bað þá um vatn í tréskál og las yfir skálinni í hálfflæmingi einhverja þulu. Lét hann Sæmund svo líta ofan í skálina og spyr hvað hann sjái. “Aðeins vatnið,” svaraði hann. Gesturinn bregður þá skálinni undir handarkrika sér og lætur Sæmund líta ofan í hana þar. Verður þá eins og lítill bjarmi á vatninu og kemur fram útsýni yfir hagmýrina á Vatnsskarðshólum, norðan túngarðs, og hleypur þar maður með létta byrði. Stundarkorn starir hann á þetta og gesturinn spyr: “Sérðu nokkuð?” Sæmundur sagðist sjá mann hlaupa norður hagmýrina og bera poka, en hann þekki ekki vel hver það sé. Gesturinn snýr þá við skálinni, og við það sér Sæmundur í andlit manninum, sem þar birtist, og þekkir hann. Ekki var það þó sá fátæki nágranni, er hann hafði grunað.

Gesturinn segir að nú hafi þjófurinn birst honum og sér þætti gaman, fyrst hann sé þekktur, að Sæmundur fengi hann til viðtals, svo sjást mætti hvort mark mætti á þessu taka. Sæmundur vildi ekki fást neitt um það, þetta væri eins og annað gaman. En nokkru síðar játaði þessi maður fyrir Sæmundi að hann hefði gripið steilurnar. Sárnaði Sæmundi að hafa dengt því áður að saklausum manni og greidd fátæka bóndanum fyrir það án þess að geta orsaka. Það hélt heimilisfólk á Vatnsskarðshólum að Sæmundur hefði lært af gesti sínum að sjá þjóf, en ekki notaði hann þá kúnst né lét öðrum eftir.

Sögn Þorsteins Sæmundssonar, Vatnsskarðshólum, 1895.

(Þjóðsögur og þættir úr Mýrdal/Eyjólfur Guðmundsson frá Hvoli; Þórður Tómasson fr. Skógum bjó til prentunar. Reykjavík: Örn og Örlygur, 1981. Bls. 102-103)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.