Af grimmd mannanna í Kötlugosi 1860

Menn voru oft hætt komnir vegna Kötlugosa og þurfi fólk stundum og bíða lengi eftir fréttum af ástvinum sínum sem staddir voru staddir vestan Mýrdalssands. Hér segir Marta Gísladóttir, sem ólst upp í Hátúnum í Landbroti frá reynslu nágrannakonu sinnar af Kötlugosinu 1860, en eiginmaður hennar, sem var á heimleið yfir Mýrdalssand var talinn af með þeim afleiðingum að reynt var að segja hana og barn hennar á sveit.

Ingveldur Gísladóttir bjó í Syðri-Vík í Landbroti og var gift Bjarna Pálssyni frá Arnardrangi, bróðir Lárusar hómópata. En Bjarni var dáinn fyrir löngu þegar ég kynntist henni. Þau höfðu eignast sjö börn, það var aðeins eitt þeirra á lífi, Bjarni, sem bjó í Efri-Vík, en þau höfðu búið í Syðri-Vík, foreldrar hans. Og ég held að það hafi verið 1860 að það varð Kötlugos. Þá bjuggu þau Bjarni og Ingveldur í Syðri-Vík, og voru mjög fátæk. Það var bara svelti, eiginlega, ekkert að borða. Þegar að voraði fóru menn í Mýrdalnum að róa til fiskjar, að minnsta kosti þegar gaf á sjó. Þá fór Bjarni út í Mýrdal til að reyna að fá sér fisk, því það var ekki róið þarna austur í Landbroti, því þar var langt til sjávar og opið haf, ekkert nema brim, ekkert hægt að flýja ef að brimaði svo að ekki var hægt að taka land. Það var það reyndar ekki í Mýrdalnum heldur en það var þó eitthvað skárra, og þar var byggðin að minnsta kosti nær sjónum. Nú Bjarni fær eitthvað af fiski í Mýrdalnum og leggur af stað heim en stansar á Höfðabrekku. Þar er honum boðinn matur, hann hafði fengið að borða svo að hann var ekki svangur, en honum var líka boðið hey handa hestunum og því gat hann ekki neitað, því það var löng leið að fara yfir Mýrdalssand og hefur hann sennilega ekki átt neitt hey víst þegar austur kom. Það var talinn átta klukkustunda lestargangur í gamla daga.

En meðan hann stansar á Höfðabrekku, gýs Katla. Og þá verður sandurinn ófær. Ef að hann hefði verið kominn austur yfir Múlakvísl, sem er vestast á Mýrdalssandi, þá hefði engin lífsvon verið fyrir hann. En nú var þetta honum til bjargar, að hann stansaði þarna til þess að hestarnir fengju að borða þótt að hann væri sjálfur búinn að borða. Svo varð hann að bíða í Mýrdalnum í þrjár vikur að minnsta kosti, því það var engin leið að komast austur. Það bárust engar fréttir heldur, því að Mýrdalssandur var alófær. En þegar að gosinu létti þá varð hann að fara vestur undir Eyjafjöll og norður fyrir jökul til að komast heim. Og kom svo niður í Skaftártungu og þaðan austur á Síðu. Hann hefur farið það innarlega að hann fór annað hvort hjá Skál eða yfir heiðina hjá Holti.

En þegar hann kemur að Holti þá fréttir hann það að þeir hafi ætlað að taka upp heimili hennar, því það var ekkert til að borða, en þeim þætti það verst að konan væri bæði ófrísk og horuð. Þau áttu að fara á sveitina, það voru ekki önnur úrræði. En konan var mjög greind og dugleg og hún sagðist hafa sagt þegar þeir komu til að taka upp heimilið að það væri nógur tími að gera það þegar það væri frétt að maðurinn væri dáinn. Og svona var nú farið með fólkið í þá daga. Og hún átti þó mág búandi í Arnardrangi sem var ekki mjög fátækur, án þess að ég vilji nú neitt fara að sverta hann. Manni hefði nú sýnst það að það hefði verið mögulegt að hann héldi lífinu í fjölskyldunni þar til fréttist um manninn. En ég veit að Ingveldur heitin sagði þetta satt, því hún var góð og greind kona.

(Eftir sögn Mörtu Gísladóttur. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í janúar 1970 (SÁM 90/2208): https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1011520

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.