Presturinn ágjarni

Presturinn ágjarni fær kotbóndann til að gæta sálu sinnar eftir dauðann til að koma í veg fyrir að hann gangi aftur. 

Einhvern tíma í fyrndinni var kirkja í Kerlingadal og presturinn bjó á staðnum. Þessi prestur, sem sagt er frá, var harðsvíraður, ágjarn og illa liðinn. Nálega enginn maður hafði gott til hans að segja. Yfirtaks var hann ágengur grönnum sínum og gjörði þeim flest til móðgunar.

Í Kerlingadal var kotbóndi, sem presturinn níddist á og skapraunaði. Með upplognum sakargiftum tók hann frá bóndanum konu hans og lét taka upp í sektargjöld mestar þær eignir [sem] í koti hans voru. Bóndi þessi lafði þó við býli sitt þar í Kerlingadalstúni.

Liðu svo langar stundir, og ekki batnaði presturinn með aldrinum. Kom nú það óvænta að prestur kennir lasleika. Þá var liðið á sumar og vex daglega krankleiki hans. Fer hann þá að óttast þessa veiki og örvænta, honum mundi ekki batna til þessa lífs. Hann lætur kalla til sín kotbóndann, sem nefndur hefur verið Jón og hann jafnan mestan óleik gert. Þegar þeir eru einir saman, segir prestur: “Bestu kúna mína gef ég þér,” svo stynur hann þungan og tekur til skjóðu einnar, fullrar af silfri – “og þessa skjóðu með öllu í með því skilyrði að þú gerir bón mína og reynist mér trúr.” Bóndinn fór hjá sér og vissi ekki hvað nú myndi koma. Prestur stynur æ meir og spyr með andköfum: “Viltu játa þessu?” Bóndinn segist skuli reyna það; hann sá að til mikils var að vinna.”Þegar ég er dauður,” segir prestur, “skalt þú vaka yfir gröfinni minni fyrstu þrjár nætur eftir að ég er grafinn.” Þessu lofaði Jóns bóndi og takast þeir saman höndum því til staðfestu. Bóndinn leiðir kúna með sér heim og þykir prestur gefa ríflega fyrir sál sinni.

Skömmu síðar deyr presturinn og er jarðaður á Höfðabrekku. Bóndinn fer eins og hann hafði lofað og sest í sálarhliðið beint undir klukkunni. Um miðnætti virðist honum hópur manna umkringja leiði prestsins og róta til moldinni, en ekki varð þeim neitt ágengt. Í afturelding hverfa þeir.

Aðra nótt sest bóndinn í sálarhliðið og sér hálfu fleiri menn troðast að leiði prestsins með mesta busli og frekju. Ekkert vinnst þeim þó, þar sem lifandi maður var áhorfandi. Eins og fyrri daginn, hurfu þeir, er dagaði.

Þriðju nóttina tekur bóndinn með sér saltarann og vakir í sama stað og áður. Sýnist honum nú koma yfir kirkjugarðinn flokkur manna og bera nokkrir þeirra karlfausk einn á milli sín á börum. Karlfauskurinn var frakkaklæddur. Eins og fyrri daginn fara þessir menn að róta í leiði prestsins en vinna ekkert á. Karlfauskurinn skimar í kringum sig og sér hvar bóndinn situr í sálarhliðinu. “Ekki er von til að vel takist, lifandi maður horfir á verkið,” segir hann. Sundrast þá samstundis allur hópurinn. Frakkaklæddi karlinn húkir einn eftir á leiði prestsins. Jón bóndi gengur til hans og býr sig til að slá hann með saltaranum. Karlfauskurinn bað hann að vægja sér og sagðist hafa átt fullan rétt á prestinum, sem í leiðinu lægi, hann hefði verið sér naglfastur og lofaður eftir dauðann. “Nú hefur þú bjargað honum fyrir það eina að hann gaf þér og þið kallið góðverk. Annars hefði hann orðið erkidraugur eins og ég.” Svo hvarf karlfauskurinn.

Jón bóndi sagði sögu þessa og bjó áfram í Kerlingadal og þá gjafir af vandamönnum prestsins ágjarna.

Sögn Snjáfríðar Einarsdóttur í Kerlingadal 1898.

(Þjóðsögur og þættir úr Mýrdal/Eyjólfur Guðmundsson frá Hvoli; Þórður Tómasson fr. Skógum bjó til prentunar. Reykjavík: Örn og Örlygur, 1981. Bls. 92-94)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.