Álfa – Gunna

Huldumaður rænir Gunnu en hún kann ráð til að forða sér

Guðrún Sæmundsdóttir, heimasæta á Lækjarbotnum í Landssveit undir lok 19. aldar varð fyrir því að huldumaður rændi henni og vildi hafa með sér inn í bæ sinn. Guðrún hafði hlaupið út á miðri vöku til þess að taka inn þvott og þá komið til hennar ungur maður. Hann greip fyrir munn hennar, hóf hana á loft og bar hana frá bænum. Þegar komið var spölkorn frá bænum setti maðurinn hana niður og bað hana að fylgja sér en hún neitaði og dró hann hana þá nauðuga langa leið þar til komið var að bæjarhúsum, heldur óvanalegum. Hún kvaðst nú skyldu ganga til bæjar með honum ef hann læsi fyrst faðirvorið en við það hvarf maður þessi og bær hans. Var Gunna þá komin að Ölvisholti sem er í nær 10 km. fjarlægð frá Lækjarbotnum, um mýrar og vegleysur að fara. Fékk hún þaðan fylgd heim til sín en upp frá þessu var hún jafnan nefnd Álfa – Gunna (HH1).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.