Hér er sagt frá útilegumanninum Arnesi sem fyrst stal lítilræði en fór á fjöll til að forðast refsingu.
Vorið 1755, þegar Magnús amtmaður Gíslason sat á Leirá en Arnór sýslumaður Jónsson bjó í Belgsholti í Melasveit, varð Arnes nokkur Pálsson á Akranesi eða í Garðasókn uppvís að þjófnaði, ei fæ eg sagt hvílíkum. En áður hann yrði handsamaður og færður sýslumanni, sem þá var títt, hvarf Arnes úr byggðinni og fannst ekki þó hans væri víða leitað og voru ýmsar getur um hvað af hefði orðið. En er á leið sumar og nótt tók að dimma fóru menn á Akranesi og í fleiri bæjum nálægt Akrafelli að verða varir hvarfa ýmissa muna úr útibúrum. Ei var heldur trútt um að smalasveinar er árla voru uppi sæi mann bera fyrir sig uppi á Akrafelli því hvarvetna umhverfis fjallið er byggð og bæir. Af þessu öllu saman kom upp kvittur sá og grunur að Arnes mundi hafa byggistöð sína í Akrafelli og hugðu menn ekki gott til er hausta og vetra tæki að eiga þar vágest slíkan yfir höfði sér.
Hreppstjórar sveitanna báru nú þetta vandræði undir héraðshöfðingja sína, amtmann og sýslumann, er báðir voru hyggnir og hugkvæmir. Stefndu þeir þá að sér hreppstjórum öllum og vitrustu mönnum af Akranesi og úr Mela-og Leirársveit og réðu ráðum sínum um hve hægast mundi að handtaka Arnes. Var það þá afráðið að hefja skyldi fangaleit um allt Akrafell einn ákveðinn dag um haustið, í hreinu og björtu veðri eða fyrsta bjartan dag þar næstan, og skyldu hreppstjórar allir kveða upp menn í kringum sig af hverjum bæ og var ákveðinn viss tími þá allir skyldu jafnsnemma hefja leitina allt í kring upp á fellið. En svo Arnes skyldi á engan veg fá undan skotist þá var svo ráðkænlega um hnútana búið að allir leitarmenn skyldu vera á hvítum hásokkum er næðu upp á mið læri og allir bera alhvítar húfur svo hvar sem nokkur sæi nokkurn mann á annan veg búinn þá væri að honum auðgengið af öllum er sæju hann. En til enn meiri vissu og vara að Arnes því síður ætti nokkurn kost að komast undan voru margir menn hér og þar, á bestu hestum, settir til aðgæslu skammt frá fjallsrótunum til að henda Arnes á hlaupi ef hann einhvers staðar leitaði ofan til undanflúnings og höfðu allir þessir reiðmenn langskeftar ólarsvipur í hendi til að hringvefja um hlauparann ef færi gæfist en þar sem mýrlent var svo ei varð vel hestum viðkomið þar voru á víð og dreif valdir hinir knáustu og fráustu menn, skammt frá fjallsrótunum, til að elta og áhenda Arnes ef ofan kynni að vilja hlaupa einhvers staðar, svo kalla mátti, að honum væri hér á allan veg allar bjargir bannaðar til undankomu.
Fjöldi manna leitaði Arnesar
Nú er ei meir frá tíðindum að segja fyrr en kemur sá hinn ákveðni leitardagur og voru þá um 80 menn búnir til leitarinnar og höfðu allir þann viðbúning sem hér var ráð fyrir gert. Þá var veður gott og bjart og hugðu menn gott til að fá handtekið Arnes er ekkert vissi um allt þetta kænlega ráðabrugg.
Nú er að segja frá Arnesi að þennan sama morgun fer hann árla á ferl og flakk úr fylgsnishreysi sínu er var hæst uppi á Akrafjalli þar sem víðast mátti til að sjá nálægt fjallinu. Getur hann þá að líta hvar sem auga rennir að hvaðanæfa drífa ríðandi menn að fjallinu. Einnig gætir hann þess að allir mennirnir nema þeir sem fyrstir fóru höfðu einkennisbúning til höfuðs og fóta. Flýgur honum þá skjótt í hug hvað nú muni á seyði og þykir heldur óvænlega áhorfast fyrir sér.
Arnes sér nú leitarmennina drífa að á allar hliðar svo búna sem áður segir. Hvorki átti hann alhvíta sokka né alhvíta húfu og hvorugt varð gripið þar upp úr grjótinu. Ei hafði hann heldur krít né neinn hvítan lit en hér rak bráð nauðsyn eftir að vera bæði snar og snjallráður eða gefast upp og þess kvaðst Arnes lengst síðan iðrast hafa að það ei gert hefði en hann varð þó ei með öllu úrræðalaus. Arnes átti skyrtutötur. Af henni rífur hann ermina, ristir sundur og vefur um höfuð sér og bindur um utan. Hvíta sokka átti hann enga og þá var þar ei hægt að fá og hvað var þá til ráða. Sokka á hann enga nema sauðsvarta og eins lita brók og buxur. Arnes fer úr sokkunum eða flettir þeim í vindil fast ofan á ristar, síðan sprettir hann upp í nærskornar stuttbuxur og brýtur þær upp fyrir mitt læri. Þannig sýndist hann klæddur í uppháa, hvíta sokka. Þá var nú enn ein þraut óunnin sem var sú að fá laumast og læðst saman við aðra leitarmenn svo enginn yrði var við. Hverju bragði hann beitti til þess man eg ógjörla en þó tókst honum það og þannig gekk hann og leitaði með þeim allra manna vandlegast allan daginn og áminnti alltaf þá er næst honum gengu að leita við vandlegast. En af því leitarmenn, sem voru úr fjórum sveitum, voru margir svo ókunnir innbyrðis að eigi þekktu hvorir aðra, grunaði enginn Arnes. En er lokið var leitinni síð dags og menn fóru að flokkast saman neðan undir fjallinu dróst Arnes lítið aftur úr, kvaðst hafa týnt vettlingi úr barmi sér og vilja svipast að honum og bað þá er næst honum voru að halda áfram – hann mundi skila sér og við það skildi með þeim að engan grunaði neitt þótt öllum þætti undarlegt að Arness skyldi hvergi vart verða og þóttust ei vita hverju gegndi. En það er af Arnesi að segja að honum þótti happ að slapp þótt þetta væri upphaf rauna hans því hvað var ein ráðningarrefsing, þótt nokkuð sár væri, hjá öllu hinu illa er langvinn, ófrjáls útilega hafði í för með sér og að hljóta ár frá ári að lifa á ránum og stuldi, ófriðhelgur, úti á öræfum, í vetrarhörkum og aldrei verða ugglaus um fjör og frelsi.
Arnes forðar sér frá Akrafjalli og heldur til Hveravalla að leita ásjár Fjalla-Eyvindar
Næstu nótt kúrði Arnes enn í fylgsni sínu í fjallinu en þorir þó með engu móti að haldast þar við lengur og býr sig að morgni til burtfarar en veit þó víst ekki hvert halda skuli þá alls áni undir vetur sjálfan. Hann hafði þá heyrt getið Fjalla-Eyvindar útilegumanns og heldur vel af honum látið og kemur honum helst í hug að leita hans upp á líf og dauða en veit þó eigi hvert hans skuldi leita. Bindur hann nú saman fátækleg fataplögg sín og leggur svo af stað, fram og austur fjöll, og segir ei af ferðum hans fyrr en hann kemur austur á Botnsheiðarveg. Þar hittir hann ferðamann úr Skorradal er var á leið suður. Sá hafði hest í togi, klyfjaðan með ull, kjöt og tólg. Arnes var þá gangmóður og allsvangur og nestislaus að kalla, því smérfjórðung er hann átti niðurdrepinn í klettaskoru á Akrafjalli gat hann ei með sér tekið og kvað hann þann mundu þar enn vera. Sagði Arnes svo frá síðan að aldrei hefði hann meiri freistni kennt en þá til að ráða mann af til fjár og hann vissi ekki nema sú freistni hefði unnið sigur á sér ef Guð ei hefði lagt sér það til að maður þessi, er líklega hefði litist sultarlega og ískyggilega á sig, hefði spurt sig að fyrra bragði hvort hann ei væri svangur og boðið sér að eta, því þegar hann gerði það þá hefði sér verið öllum lokið og þá ei getað fengið af sér að vera svo guðlaus að gera honum mein heldur þáði hann matarboð hans með bestu þökk og át þar nægju sína af keti, floti, fiski, brauði og sméri, og svo gaf þessi maður honum eins manns verð af sama mat og þáði fyrir það, sem nærri má geta, bestu guðslauna þakkir af Arnesi og í styrk þessarar fæðu hélt Arnes austur á fjöll og öræfi og létti ei fyrr en hann á því hausti nær fundi Fjalla-Eyvindar og lögðu þeir síðan lag sitt saman um allmörg ár sem gjör má lesa í sögu Fjalla-Eyvindar.
Arnes náðist með þeim Eyvindi og Höllu á Hveravöllum haustið 1764 og var han þá í gæslu hjá Jóni sýslumanni Jónssyni, er þá hélt Strandsýslu, en slapp frá honum enda lýsing af honum lesin upp á alþingi vorið 1765. Jafnframt var þeim lýst, Eyvindi og Höllu, því þau höfðu sloppið líka frá Halldóri sýslumanni Jakobssyni er geymdi þeirra.
Sagt er að Arnes hafi borið Eyvindi besta orð góðmennsku og guðrækni en vart kvaðst hann [hafa verið] óhræddur um líf sitt fyrir Höllu og Abraham, syni hennar, meðan hann lifði.
Tvö seinustu árin sem Arnes lá úti hafðist hann oftast við í hellisskúta hjá Elliðaám, skammt frá Ártúni, uns ellibilun knúði hann að gefa sig alveg á vald byggðarmanna kringum 1790 og var þá að nafninu settur á tugthúsið en af því þá var verið að frumbyggja dómkirkju í Reykjavík en Arnes var þjóðhagi var hann hafður þar við smíðar og dó fjörgamall í Engey 7. september 1805.
Saga þessi er eftir sögn sr. Arnórs Jónssonar (1772-1853) í Vatnsfirði.
(Íslenskt þjóðsagnasafn. 2. bindi. Ólafur Ragnarsson, Sverrir Jakobsson og Margrét Guðmundsdóttir sáu um útgáfuna. Reykjavík, Vaka-Helgafell. Bls. 160-164.)
Kaflaheiti eru frá ritara Sagna af Suðurlandi.