Einn skólapiltanna gaf sér tíma til að aðstoða skessuna og hún launaði honum vel.
Eitt sinn vóru átján skólapiltar á ferð yfir Skeiðarársand. Bar svo til að einn þeirra varð eftir af hinum að gjöra við hjá sér á hestinum, en hinir lagsmenn hans riðu á undan. Sjá þeir þar einhverja mannslíkan skríða um sandinn á fjórum fótum; sjá þeir að þetta er skessa. Hún skríður nú til þeirra og biður þá hjálpa sér suður yfir ána, en þeir hlæja að henni og yfirgáfu hana og fóru leið sína.
Nú kemur sá sem eftir varð af hinum, hann hét Þórarinn, og biður þessi ókind hann að hjálpa sér yfir ána. Hann kvað það velkomið ef hún treysti sér að komast á bak hestinum og ef hann gæti borið þau. Hún kvað hestinn bera þau og líka komast á bak. Síðan stumraði hún á bak hestinum fyrir aftan Þórarin og flytjast þau þannig yfir ána, og sem þau koma á land spyr hann hvert hún vilji halda. Hún segist nú atla að halda inn með ánni, ” og mun ég nú komast héðan af til byggða minna og vildi ég einhvern tíma geta launað þér þessa greiðvikni sem þú hefur auðsýnt mér. En það kann ég þér að segja að vetur þessi verður hinn harðasti, en nær sem þú kemur í Skáholt skaltu teyma hesta þína í brekkuna fyrir ofan staðinn. Skal ég þá hirða þá það sem eftir er til vordaga og máttu, nær [þú] fer, vitja þeirra á sama stað sem þú skildir við þá. ” hann þakkar henni fyrir þetta og síðan skilja þau með kærleikum.
Ríður hann lengi eftir félögum sínum unz hann nær þeim. Hlæja þeir mjög að honum og segja hann hafa lengi dvalið hjá fallegu stúlkunni á Skeiðarársandi, en Þórarinn lét sem hann heyrði það ekki. En sem þeir koma í Skálholt fer hann með hesta sína eins og fyrir hann var lagt. Leið svo fram að þorra um veturinn; vóru þá hestar allar skólapilta gjörfallnir því vetur var mjög harður. En um vorið þá skólapiltar vóru ferðbúnir gengur Þórarinn þangað sem hann skildi við hesta sína um haustið og standa þeir þar bundnir á streng, og eru þeir feitari en um haustið. Verða nú lagsmenn hans forviða og spyrja hver hafi fóðrað hesta hans, en hann gefur þeim ekkert svar upp á það. En svo fór að þeir máttu allir kaupa sér hesta til ferðarinnar nema Þórarinn.
Mörgum árum seinna þegar Þórarinn var orðinn prestur var hann eitt sinn í kynnisferð og reið yfir Kjalveg snemma vors með einum unglingsdreng. Gjörði þá að þeim ófæra snjóhríð svo þeir fóru afvega og bárust loks fyrir undir stórum steini og hugðu að láta þar lífið. Heyra þeir þá að þrammað er að steininum og líta þar koma ófrýnilega skessu. Hún biður þá með sér koma, en prestur þorði það valla, en fór þó af stað með henni. En þar kom að drengur þraut að ganga; stakk hún honum þá í styttu sína að aftanverðu, og sem þau höfðu farið um stund þraut prest líka göngu. Tók þá skessan hann og lét hann koma í styttuna að framanverðu. Þrammar hún svo lengi unz hún sprettir þeim úr styttunni í einum hellisdyrum. Er þar fyrir ung stúlka og veita þær þeim góða sæng og beina um nóttina. En um morguninn spyr skessan prest hvort hann þekki sig ekki; hann kvað nei við. Segir hún þeim þá frá fundi þeirra á sandinum og kannst þá prestur við hana. Segir hún honum þá að þetta sér dóttir sín og hafi hún þá verið ólétt og með léttasóttinni að henni þegar þau fundust á sandinum. Situr prestur þarna hjá henni í hálfan mánuð og fylgir hún honum aftur á rétta leið. Prestur spyr hvað hún vili að launum hjá sér fyrir alla hjálpina. Hún bað hann að gefa sér einu sinni að éta. Skilja þau síðan með kærleik miklum, en um haustið lét prestur drenginn reka tuttugu sauði gamla og uxa átta vetra gamlan til skessunnar. Er mælt að hún hafi sent presti aftur ýmsa góðgripi og hélzt vinfengi þeirra alla ævi síðan.
(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 3, bls. 251-252).