Reynihríslan

Álfkonan og bóndinn takast á um reynihrísluna. Bóndinn gefur sig ekki og fórnar miklu.

Í Syðstu-Mörk undir Eyjafjöllum er reyniviðarhrísla í gili inni í högunum, en þau álög liggja á hríslunni að hver sem taki af henni grein verði fyrir einhverjum slysum.

Bóndi nokkur í Mörk vildi vita hvort þetta væri satt. Var hann ekki uppnæmur fyrir öllu og trúði þessu illa. Hann fer því til einn góðan veðurdag, sníður grein af hríslunni og hefur hana heim með sér. Nóttina eftir kemur kona til hans í draumi. Er hún svipmikil mjög og segir: “Vel gastu látið það vera að sníða grein af hríslu minni. Vissir þú vel hvað við lá og ræð ég þér til að gera það ekki oftar, ef þú vilt ekki verra af hafa en komið er. Skaltu sjá það á morgun hvað af hafðist. ” Morguninn eftir lá snemmbæran dauð á básnum. Um daginn fer bóndi aftur, sníður nokkru stærri grein af hríslunni og hefur heim með sér. Um nóttina dreymir hann sömu konuna. Er hún þá miklu reiðilegri en fyrr, hefur sömu orð og áður og segir að hann skuli enn verra af hafa en orðið sé, ef hann haldi áfram uppteknum hætti. Morguninn eftir liggur reiðhestur bónda dauður í haganum. Bónda þykir enn illt að láta undan, fer til um daginn, sníður grein af hríslunni, langtum stærri en áður, og fer heim með hana. Um nóttina kemur konan enn til hans og er nú mjög illileg. Sagði hún honum að hann skyldi komast að svo fullkeyptu með athæfi sitt að hann sá sinn kost vænstan að láta undan. Um morguninn var sonur bónda, sjö vetra gamall, horfinn og fannst hvergi upp frá því. En þegar bóndi var á gangi í högunum eftir þetta var verið að kasta í hann slitrum af fötum drengsins. Upp frá því lét bóndi reynihrísluna í friði.

Úr handriti séra Jónasar Jónssonar (1856-1918) frá Hrafnagili

(Íslenskt þjóðsagnasafn. 4. bindi. 2000. Ólafur Ragnarsson, Sverrir Jakobsson og Margrét Guðmundsdóttir sáu um útgáfuna. Rv., Vaka-Helgafell. s. 307)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.