Vatnsskrattar

Fólkið brjálaðist af að borða vatnsskrattann. Sá svo til vatnsskrattanna síðar en talið er að þeir hafi komið úr Markarfljóti.

Það bar til í Hvammi undir Eyjafjöllum, endur fyrir löngu, að bóndinn fór í Bakkaferð á útmánuðum til vörukaupa. Nokkru eftir er hann fór sást selur eða einhver skepna í selsmynd í heygarðsgeil í Hvammi og réðust konur og börn þá umsvifalaust með ótal bareflum á selinn og lögðu hann að velli. Þóttist fólkið veiða vel og beið ekki boðanna að gera selinn til. Pottur var settur á hlóðir og kvikindi þetta undir eins soðið, enda mun fólkið hafa verið svangt eins og margir menn voru þá um það leyti árs. Síðan tóku heimamenn ósleitilega til matar síns og þóttust þeir hafa orðið fyrir guðsgjöf. En svo fór að allir menn sem einhvers neyttu af selnum brjáluðust og önduðust síðan innan skamms úr brjálsemi. Þá er bóndi kom úr kaupstaðnum voru allir heimamenn hans liðin lík. Þótti honum köld aðkoman er hann leit inn í baðstofuna og blökk lík, er eigi höfðu verið veittar nábjargirnar, blöstu við í hverju rúmi en nályktin ætlaði að kæfa hann. Var haft fyrir satt að kvikindi þetta hefði verði vatnsskratti er flækst hefði þangað heim úr Markarfljótinu er rann áður fyrr skammt frá bænum annað veifið.

Tómas hét maður og var Jónsson, fæddur á öndverðri 19. öld á Álftarhól í Landeyjum og þar ólst hann upp. Þegar hann var barn að aldri þótti þess strax verða vart að hann væri skyggn. Hann sá hús, fólk og fénað sem aðrir menn komu ekki auga á. Var hann stundum svo hræddur við sýnirnar að nærri lá að hann sleppti sér. Foreldrar Tómasar óttuðust að slíkt gæti riðið honum að fullu eða þá að hann yrði heillaður einn góðan veðurdag. Fengu þau því messuvín eða vígt vatn og helltu í augu barnsins. Upp frá því tók að mestu fyrir sýnir hans móts við það sem áður var.

Þá er Tómas var uppkominn gerðist hann bóndi að Vallnatúni undir Eyjafjöllum. Þá bar það til eitt sinn að hann kom ofan úr Dalsókn og hélt heimleiðis en þurfti að koma við í Nýjabæ og var það nokkuð úrleiðis. Þegar hann kemur að Fitjarál og heldur austur með honum þykir honum hestur sinn allt í einu fara að verða nokkuð hvimulegur undir sér. Hann gat ekki skilið þetta fyrst um sinn. En brátt sá hann komna við hlið sér skepnu nokkra allólögulega útlits. Honum virtist hún einna helst vera í hestsmynd, en hauslaus var hún og skvampaði óhrjálega í henni þegar hún gekk áfram. Á baki skepnu þessari sátu tvær hrúgur í mannsmynd en markaði þó ekki nema fyrir ofurlitlum stúfum í fóta stað. Ferðalalli þessi gerði Tómas svo skelkaðan að hann þorði ekki að fara fram að Nýjabæ heldur hélt hann rakleiðis áfram austur með álnum. Þessi ógeðslegu kvikindi fylgdu honum lengi og voru þau jafnan á hlið við hann. Þegar að Hafurshól kom hurfu þau honum en um leið kvað við hár brestur úr þeirri átt sem að hólnum vissi.

Tómas taldi að kvikindi þessi verið hafa vatnsskratta úr Markarfljóti er féll þá skammt frá Hafurshól.

Þórður Tómasson (f. 1921) skráði eftir sögn Arnlaugar húsfreyju Tómasdóttur (1860-1944), Vallnatúni, Eyjafjöllum og móður hennar, Þuríðar Einarsdóttur (f. 1817)

(Íslenskt þjóðsagnasafn. 4. bindi. 2000. Ólafur Ragnarsson, Sverrir Jakobsson og Margrét Guðmundsdóttir sáu um útgáfuna. Rv., Vaka-Helgafell. s. 78)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.