Skrímsli við Selárgljúfur

Hér segir Þórarinn Helgason (1900-1978) bóndi og fræðimaður frá Þykkvabæ í Landbroti frá viðureign afréttarmanns við skrímsli við Selárgljúfur snemma á 20. öld. 

Bændur úr Landbroti voru að koma úr afréttarsafni um haust. Einn maðurinn veiktist, Þorkell Einarsson í Ásgarði, og gat eigi fylgt safninu. Þá urðu eftir með honum tveir eða þrír menn, Jón Þorkelsson í Seglbúðum og Davíð Davíðsson í Fagurhlíð. Veður var gott, rigningarsúld og þoka og náttmyrkur, svo að Jón og Þorkell og þriðji maður sem var með þeim, auk Davíðs, urðu þess ekki varir að Davíð vantaði fyrr en þeir komu að Heiðarseli. Þar gistu þeir og töldu víst að þegar Davíð hefði orðið þess vís að þeir hefðu tekið aðra götu í Rauðárgrefti sem er nokkuð langt inn í Selheiði, hefði hann farið beint heim. Þeir vissu að hann var á afbragðs hesti, röskum og skapmiklum. Þó Davíð sæi hvorki brot á Skaftá né annað til vegar, töldu þeir þá báða örugga. Hesturinn var rauðblesóttur og hét Blesi. Davíð var kjarkmaður, rólegur og vanur ferðamaður, svo að þetta var líklegast.

Morguninn eftir þegar birti af degi kemur Davíð að Heiðarseli og segir sína sögu. Þegar hann verður þess var að hann var orðinn einn, ætlaði hann að halda áfram og hitta samferðamennina í Heiðarseli. Tvær götur eru yfir Heiðina en Davíð fór þá götu sem lá vestar, nær Selárgljúfri en þeir fóru þá eystri. Vestari gatan liggur á einum stað tæpt á gljúfurbarminum. Selá fellur eftir gljúfrinu, áin er ekki vatnsmikil nema í leysingum en í ánni er foss og gljúfrið djúpt. Þegar Davíð kemur þar sem gatan er tæpust á gljúfurbarminum sér hann grilla á flikki sem ræðst á hundinn sem að rölti á undan Davíð. Hundurinn skrækti óskaplega og vissi Davíð ekki meir um hann. Í þessu ærðist hesturinn svo að Davíð kemst með naumindum af baki. Finnur hann ekki annað en að hesturinn ætli afturábak ofan í gljúfrið. Tekur Davíð á það ráð að berja með svipuólinni í kringum hestinn, við það róaðist hann í svipinn og með þessu hefur hann að smá þoka honum frá brúninni. En aldrei mátti hann hætta að slá því að þá ærðist hesturinn.  Þetta gekk alla nóttina þangað til í dögun.  Hvorki sá Davíð né heyrði neitt nema í byrjun þegar hundurinn fór frá honum.

Svo var Davíð þreyttur og af sér genginn að fólkið þekkti hann ekki fyrir sama mann og svo fór um fleiri sem að þekktu hann og margir töldu hann aldrei hafa náð sér. Svipuólin var barin upp. Á beislinu var ekki lát, og taldi Davíð að það hefði bjargað sér og kannski hestinum. Aldrei var Davíð rengdur um þetta né annað sem hann sagði. Af hundinum er það að segja, að fólkið í Fagurhlíð varð hans eitthvað vart um kvöldið og ætlaði að gefa honum en hann skreyddist inn í fjósbás og þáði ekkert fyrr en Davíð kom heim.

Sögn Þórarins Helgasonar (SÁM 84/63). Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í júní 1964 sjá https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001050

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.