Eiðisboli

Bolabás við Dyrhólaey

Sandfjaran milli Dyrhólaeyjar og Reynisfjalls er kallað Eiðið og dregur boli nafn þar af. (Ljósm. ÞNK)

Eiðisboli var sjódraugur sem glettist við menn. 

Um Eiðisbola var mest talað kringum aldamótin (1800). Austan undir Dyrhólaey rennur Dyrhólaós í sjó, en þegar sjávargangur fyllir útfallið með sandi, svo þar verður þurr fjara, sem oft ber við, þá er það kallað eiði. Þar er hellir í berginu fyrir vestan eiðið, sem oft er í sjó, en stundum meira eða inna fullur af sandi, en kvað þá vera ákaflega stór, þegar hvorki kreppir að sjór eða sandur. Í þessum helli er sagt, að héldi til vættur og var um hann sagt, að hann hljóðaði ákaflega stundum, einkum undir óveður. Ekki var hann heldur laus við að glettast við menn, sem seint á kvöldum voru á ferð á eiðinu. Hann var kallaður Eiðisboli, en ekki var hann sagður í frændsemi við Urðarbola, því Eiðisboli var grunaður um að vera sjódraugur, og jafnvel tilnefndur maður, sem drukknaði í sjó hér í Út-Mýrdalnum. En nú er samt Eiðisboli fyrir löngu lagztur til hvíldar, enda er hellirinn hans nú oftast í sjó eða þá með öllu fullur af sandi.

(Sigrún Lilja Einarsdóttir. Kyngimögnuð náttúra – Þjóðsögur og sagnir – Mýrdalshreppur – Land og Saga. Átthagafræði í 1100 ár, bls. 104-105. Fræðslunet Suðurlands. Selfoss 2005)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.