Hellirinn Fúsaból

Fúsaból

Fúsaból (Ljósm. ÞNK)

Vigfús felur sig í hellinum eftir að hafa eignast barn með systur sinni. Önnur systir Fúsa hjálpar honum að dyljast í hellinum.

Austan í Reynisfjalli er hellir sem kallaður er Fúsaból; hann er víður mjög að framanverðu svo að neðan af sléttu sést inn í botn á honum nema hvað í hellirinn kastar skugga. Hann mjókkar eður þrengist eftir því sem innar dregur. Innst við gaflinn eru lagðir steinar í röð sem afmarka mátulegt meðalmannsrúm bæði að vídd og lengd. Þetta er í landi jarðar þeirrar er Vík heitir í Dyrhólahreppi í Skaftafellssýslu. Svo er sagt að í fyrndinni hafi maður nokkur er Vigfús hét átt barn við systir sinni og eftir að hann var dæmdur til lífláts hafi hann sloppið. Aðra systir Vigfúsar átti bóndinn í fyrrnefndri Vík. Þangað komst Vigfús og hitti leynilega systir sína, en hún treystist ekki að halda hann á laun og því talaðist svo til að hann skyldi finna sér fylgsni nokkurt, en hún skyldi veita honum mat með þeim hætti að hún setti matinn við vissan glugga (sjálfsagt skjáglugga) áður en hún háttaði á hvörju kvöldi, en hann skyldi vitja matarins á nóttinni. Síðan hélt Vigfús sig í fyrrnefndum helli og vitjaði matarins á nóttinni, en engum kom í hug að leita hans í þessum stað því öllum þykir sem þeir sjái inn í botn á fyrrnefndum hellir neðan af alfaravegi sem þar liggur neðan undir, og þó hellirinn sé í búfjárhögum hagar sjaldan svo til að sauðamenn þurfi að koma inn í hann, en vel má leynast þar svo ekki beri á fyrr en inn er komið.

Nú leyndist Vigfús með þessum hætti nokkuð á annað ár. En þegar þessi tími var liðinn komst bóndinn að þessu og gekk hann þá harðlega á konu sína að segja til hvar bróður hennar héldi sig, en hún kveðst ekki vita né vilja segja. En þegar bóndinn varð einskis vísari með þessu móti kvaðst hann mundi hitta ráð sem dygði, og litlu síðar kom hann hárbeittum ljá fyrir innanvert við gluggann þannig að eggin var rétt fyrir hendinni á Vigfúsi þegar hann tók matinn. Þegar bóndinn tók þetta til bragðs var snjór á allri jörð. Nú fór eins og bóndinn ætlaðist til, Vigfús kom á gluggann um nóttina, tók matinn eins og vant var, en skarst svo á hendinni að hann gat ei stöðvað, fór þó í hellir sinn og lagðist þar niður. En að morgni fór bóndi að hyggja að hvörs hann yrði vís, og sá hann þá strax við gluggann blóð mikið og rakti hann síðan blóðferilinn ásamt förunum allt inn í hellirinn sem þó er langur vegur frá bænum; var Vigfús þá kominn að bana af blóðrás og er þess ekki getið hvört þeir áttust nokkuð við. Það er sögn sumra manna að eftir þetta hafi systir Vigfúsar sagt skilið við bónda sinn. En það er haft fyrir satt að af þessum aðburði sé fyrrnefndur hellir nefndur Fúsaból.

Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri. 2 bindi (Leipzig: J. C. Hinrichs, 1862-1864), II, 109; Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. 6 bindi. Rits. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson. (Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961), II, 111-112. MS: Lbs 534,239.

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.