Gilitrutt

Kerling bauð ungu konunni aðstoð við ullarvinnuna fyrir hófleg laun.

Einu sinni bjó bóndi einn ungur austur undir Eyjafjöllum. Hann var ákafamaður og starfsamur. Þar var sauðganga góð er hann var og átti bóndi sauðfé mikið. Hann var þá nýkvæntur er þessi saga gjörðist. Kona hans var ung, en duglaus og dáðlaus. Nennti hún ekkert að gjöra og skipti sér lítið af búinu. Þetta líkaði bónda mjög illa, en gat þó ei að gjört. Um haustið fékk hann henni ull mikla og bað hana nú að vinna hana til voðmála, en konan tók ekki líflega undir það. Leið svo fram á veturinn að konan tók ekki á ullinni og ámálgaði þó bóndi það oft.

Einu sinni kemur kerling ein heldur stórskorin til konunnar og bað hana að greiða eitthvað fyrir sér. „Geturðu unnið nokkuð fyrir mig í staðinn?“ segir konan. „Til er það,“ segir kerling, „eða hvað á ég að vinna?“ „Ull til voðmála,“ segir konan. „Fáðu mér hana þá,“ segir kerling. Konan tekur þá ákaflega mikinn ullarpoka og fær henni. Kerling tekur við sekknum og snarar á bak sér og segir: „Ég skal koma með voðina á sumardaginn fyrsta.“ „Hvað viltu hafa í kaup?“ segir konan. „Það er ekki mikið,“ segir kerling, „þú skalt segja mér nafn mitt í þriðju gátu og erum við þá sáttar.“ Konan játti því og fer nú kerling burt.

Líður nú veturinn og spyr bóndi oft konuna hvar ullin sé. Hún segir hann það engu skipta og skuli hann fá hana á sumardaginn fyrsta. Bóndi lét sér fátt um finnast og leið nú fram á útmánuði. Þá fer konan að hugsa um nafn kerlingar, en sá sér engin ráð til að komast að því. Varð hún nú áhyggjufull og hugsjúk af þessu. Bóndi sér það að henni var brugðið og bað hana að segja sér hvað að henni gengi. Hún sagði honum þá alla sögu. Varð þá bóndi hræddur og segir að nú hafi húnilla gjört því þetta muni tröll vera sem ætli að taka hana.

Einu sinni varð bónda gengið upp undir fjallið og kom hann á grjóthól einn mikinn. Hann var að hugsa um raunir sínar og vissi varla af sér. Þá heyrist honum högg í hólnum. Hann gengur á hljóðið og kemur að smugu einni. Sér hann þá hvar kona ein heldur stórvaxin situr að vef og hefur hún vefinn milli fóta sér og slær mjög vefinn. Hún kvað fyrir munni sér þetta: „Hæ, hæ, og hó, hó. Húsfreyja veit ei, hvað ég heiti; hæ, hæ, og hó, hó. Gilitrutt heiti ég, hó, hó. Gilitrutt heiti ég, hæ, hæ, og hó, hó.“ Þetta lét hún ganga og sló mjög ákaflega vefinn. Bóndi varð nú glaður og þóttist vita að þetta mundi vera kerling sú er hafði fundið konu hans um haustið.

Hann fer síðan heim og ritar hjá sér á miða nafnið „Gilitrutt“. Ekki lét hann konu sína heyra það og kom nú hinn síðasti vetrardagur. Þá var húsfreyja mjög angurvær og fór hún ekki í klæði sínum daginn. Bóndi kemur til hennar og spyr hvort hún viti nafn vinnukonu sinnar. Hún segir: „Nei“ — og kveðst nú ætla að harma sig til dauða. Bóndi segir að þess þurfi ekki og fékk henni blað með nafninu á og segir henni upp alla sögu. Hún tók við blaðinu, en skalf af ótta því hún var hrædd um að nafnið kynni að vera rangt. Biður hún nú bónda að vera hjá sér þegar kerling komi. Hann segir: „Nei, og varstu ein í ráðum þegar þú fékkst henni ullina svo bezt er að þú gjaldir ein kaupið.“ Fer hann burt síðan.

Nú kemur sumardagurinn fyrsti og lá konan ein í rúmi sínu, en enginn var annar í bænum. Heyrir hún þá dunur miklar og undirgang og kemur þar kerling og ei frýnileg. Hún snarar inn voðmálsstranga miklum og segir: „Hvað heiti ég nú, hvað heiti ég nú?“ Konan var nær dauða en lífi af ótta og segir: „Signý?“ „Það heiti ég, það heiti ég, og gettu aftur, húsfreyja,“ segir kerling. „Ása?“ segir hún. Kerling segir: „Það heiti ég, það heiti ég, og gettu enn, húsfreyja!“ „Heitirðu ekki Gilitrutt?“ segir konan. Kerlingunni varð svo bilt við að hún datt endilöng niður á gólfið og varð þá skellur mikill. Rís hún síðan upp og fór burtu og sást ekki eftir það. Konan varð nú fegin að hún slapp frá óvætti þessum og varð nú öll önnur. Gjörðist hún iðjusöm og stjórnsöm og vann æ ull sína sjálf.

(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 1, bls. 172-173).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.