Sporin við Skaftárós

Á Meðallandsfjöru

Á Meðallandsfjöru (Ljósm. LM)

Menn sem voru að vinna við Skaftárós sáu fótspor í sandinum og fylgdu þeim eftir. Fótsporin voru smágerð, jafnvel eftir barn. Gat verið að það hafi farist bátur og barn komist í land?

Skaftárós er vafalaust einhver eyðilegasti staður hér á landi, hin ægilegasta sandauðn í vestur, norður og austur en freyðandi, ólgandi hafið til suðurs. Sandurinn er svo sléttur, að það stendur ekki steinn upp úr, aðeins einstöku meltoppur mildar svip eyðimerkurinnar, og sjaldan sjást þar lifandi verur á ferli.

Við ósinn, þar sem Skaftá fellur í hafið, stendur timburhjallur, búlkhús frá þeim tíma, þegar vörur til bænda á milli sanda voru fluttar sjóveg frá Reykjavík, áður en vegir og bílar komu til sögunnar. Það er eins og þetta gamla, yfirgefna hús gefi staðnum enn ömurlegri svip, og veit ég að einstöku menn hafa ofurlítinn beyg af að koma þar. Það þarf ekki að hreyfast mikill vindur til þess að í því hrikti og þá heyrast þar ýmis konar hljóð, og nokkrar sögur dularfullar og skrítnar hef ég heyrt þaðan. Þangað er nú að vonum fáförult, enda ellefu kílómetrar í beina línu, til næstu bæja, sem eru Steinsmýri í Meðallandi og Arnardrangur í Landbroti. Þarna við sjóinn hafa orðið mörg slys, fyrr og síðar, franskar fiskiskútur og togarar hafa strandað þar, því straumar í Meðallandsbugt eru hættulegir, en ekki verður frá neinu þeirra sagt hér.

En þegar ég ferðaðist um Skaftafellssýslur, fyrir um aldarfjórðungi, heyrði ég sagt frá fyrirbrigðum sem menn gátu ekki gert sér grein fyrir og þóttu einkennileg og dularfull. Þar höfðu sézt nýstigin spor eftir mannsfætur í sandinum í fæðarmálinu og var þó öruggt, að þar hafði enginn lifandi maður frá næstu bæjum verið á ferð. Er mér kunnugt um fjóra áreiðanlega og trausta menn, sem sáu þessi spor, og hef ég haft tal af tveim þeirra, og könnuðust þeir báðir við að þetta væri rétt. En þar sem langt er síðan ég hafði haft sögn af þessu sneri ég mér til eins þeirra, Sigfúsar Vigfússonar bónda á Geirlandi á Síðu og bað hann að segja mér frá, hvað fyrir hann hafði borið við Skaftárós. Brást hann vel við, og segir hann þannig frá þessu:

“Ég ætla að láta verða af því að senda þér nokkur orð um það, sem þú baðst mig um, er við hittumst nú fyrir skömmu. Það er um förin, sem ég sá við Skaftárós. Það er nú orðið langt síðan þetta gerðist og ég búinn að gleyma öðru í sambandi við þessa ferð en atburðinum við ósinn.

Ekki man ég hvaða ár þetta var, en ég held það hafi verið einhverntíma á árunum 1920-1926. Ég fór stöku sinnum að Skaftárósi til að veiða silung og í þetta skipti með Steingrími Sveinssyni, sem þá mun hafa verið vinnumaður í Seglbúðum í Landbroti, nú búsettur í Reykjavík. Við komum að ósnum þegar sjór var nokkuð mikið fallinn út, því fyrr er ekki hægt að komast í ósinn vegna dýpis. Við munum hafa ætlað að veiða í útfallinu eða nálægt því, því að þar man ég eftir að við komum að ósnum. Ósinn rann á löngum vegi austur með fjörunum og mjókkaði tanginn milli hans og sjávarins eftir því sem austar kom, og var mjög mjór þar sem ósinn rann til sjávar.

Þarna var tanginn mjög flatur og flæddi því yfir hann á alllöngum kafla um flóðið. Sandurinn var þarna salla fínn, og þar sem vatnið var nýfallið af og sandurinn blautur, sáust för mjög greinilega. Í sólskini og hita þornar þessi sandur fljótt, svo ekki er nema um fremur mjóa ræmu að ræða sem þannig er. Vegna þess hve tanginnn er flatur fellur líka mjög ört af allstóru svæði, svo ekki er um nema mjög stuttan tíma að ræða sem sandurinn er blautur.

Þegar við komun nú þarna að ósnum, verða þar fyrir okkur för í þessum blauta sandi, sem við þóttumst alveg vissir um að væru eftir barn á að gizka 10-12 ára í mesta lagi. Okkur varð mjög ónotalega við þessa sjón, því ekki sáum við neina mannveru neins staðar, og förin hlutu að vera alveg ný. Við fórum að athuga förin nákvæmlega og um það virtist ekki vera að villast, að þarna hefði barn verið á ferð. Sporin voru svo greinileg í sandinum, að nákvæmt mót var eftir hverja tá og alla lögun fótanna. Spor þessi lágu svo meðfram ósnum í áttina til sjávar, eftir þessari blautu sandræmu. Bil milli sporanna var eðlilega langt til að krakkinn hefði gengið þarna fremur greitt meðfram vatninu. Staf eða prik virtist hann hafa haft í hendinni og stungið því niður við og við með nokkuð jöfnu millibili. Vegna þess hve þetta var nálægt sjó og dálítil hreyfing á vatninu, hafði sums staðar skolazt yfir förin eða það að gengið hefði verið út í vatnið á köflum. Á stöku stað hafði verið staldrað við og horft til lands, en farið svo af stað aftur.

Við vorum svo sannfærðir um, að þarna hefði verið krakki á ferðinnni, hvernig svo sem á því ferðalagi stæði, að við tókum strax ákvörðun um að rekja förin. Ekki höfðum við samt gengið langt áður en förin hættu að koma fram í sandinum; þ. e. a. s. að þau lágu út í sjóinn og ekki upp úr honum aftur. Við héldum samt áfram, því hreyfing var það mikil í fjörunni, sem líka er þarna fínn sandur, að þau gátu vel hafa skolazt burtu, ef gengið hefði verið í flæðarmálinu. Við héldum alla leið að næsta ósútfalli fyrir vestan, sem er Eldvatnsós, en þangað var meir en klukkutíma gangur. Við sáum að tilgangslaust var að halda þessari leit áfram, því þessi ós var með öllu ófær yfirferðar, að minnsta kosti fyrir ungling, og héldum við því sömu leið til baka.

Þegar við komum til baka á þann stað, sem við sáum förin fyrst, sáum við þau að vísu en þá var sandurinn fyrir löngu orðinn þurr og förin það ógreinileg að við hefðum naumast veitt þeim sérstaka eftirtekt. Nú var fallið of mikið út til að líkur væru fyrir veiði og varð ekki meira úr þessari veiðferð, enda vorum við ekki neitt sérstaklega upplagðir að fara að reyna það, því við óttuðumst mjög, að þarna hefði orðið eitthvað slys við óseinn, eins og stundum hefur komið fyrir. Við héldum því heim við svo búið.

Þrátt fyrir eftirgrennslan gátum við ekki frétt að neinir hefðu farð að ósnum þennan dag og sporin, sem við sáum í sandinum, því með öllu óskiljanleg. Margt er nú gleymt frá þeim tíma er þetta gerðist, en fátt, sem fyrir mig hefur borið síðan, man ég eins vel og þessi för í sandinum við Skaftárós.”

Við þessa greinargóðu frásögn Sigfúsar á Geirlandi þarf eiginlega engu að bæta. Sumir menn hafa þó dregið í efa að um spor eftir mannsfætur hafi þarna verið að ræða og hafa jafnvel talið að þetta hafi verið för eftir selshreifa. Þriðji maður sem mér er kunnugt um að séð hafi sams konar spor og Sigfús segir frá og undir svipuðum kringumstæðum, Ezra Pétursson fyrrverandi héraðslæknir í Síðulæknishéraði og taldi hann engan vafa á að þau væru eftir mannsfætur.

(Sögu þessa sagði Sigfús Vigfússon á Geirlandi.  Skrudda. Sögur, sagnir og kveðskapur/skráð hefur Ragnar Ásgeirsson. Reykjavík, Búnaðarfélag Íslands gaf út, 1957, 267-268.)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.