Anna frá Stóruborg og Hjalti

Vigfús lögmaður og hirðstjóri Erlendsson á Hlíðarenda var ákaflega ríkur maður og mikill höfðingi. Hann lést í hafi á leið  til Íslands vorið 1521. Hann átti Guðrúnu Pálsdóttur frá Skarði, þess er veginn var 1496, Jónssonar. Þau áttu þrjár dætur. Var ein þeirra Guðríður, er átti Sæmundur ríki Eiríksson í Ási í Holtum, önnur Kristín, fylgikona séra Magnúsar Jónssonar á Grenjaðarstað, og hin þriðja var Anna. En Páll var sonur Vigfúsar og bjó hann á Hlíðarenda eftir föður sinn og varð síðar lögmaður og mikill höfðingi (d. 1570).

Anna fór ógift frá Páli bróður sínum að Stóruborg undir Eyjafjöllum, eignarjörð sinni, og var hún þá einhver mesta jörð undir Fjöllunum. Greinir menn á um hvort þar hafi þá verið 30, 40 eða 60 hurðir á járnum. Var það fyrrum oft talið til marks um stærð bæja hvað margar hurðir væru þar á hjörum. Anna gerðist auðkona hin mesta og er talið til marks um búrisnu hennar að hún hafði þrjú selstæðin, eitt á Seljunum, annað á Ljósadíla og þriðja á Langanesi. Sagt er að margir hafi beðið hennar en hún verið mannvönd og engum tekið. Hjá henni var á Borg smaladrengur sá er Hjalti hét Magnússon, lítilla manna en félegur.

Einu sinni í kalsaregni um sumar eitt hafði Hjalti verið yfir fé og kom heim um morgun húðhrakinn og votur. Voru þá piltar hennar að nota rekjuna. Slógu þeir nú upp á glensi við Hjalta og buðu honum ærið fé til þess að fara nú heim eins og hann var hrakinn og uppí hjá húsmóðurinni. Hjalti fór nú heim og upp í loftstigann en er hann rak upp höfðuðið leit Anna við honum. Varð hann þá einurðarlítill og dró sig í hlé. Fór svo í þrjú skipti. Anna tók eftir þessu óvanalega einurðarleysi Hjalta og segir:

“Hjalti, hvað er að þér?”

Hann segir henni hverju vinnumenn hennar hafi lofað honum.

“Tíndu þá af þér leppana, drengur minn, og komdu upp í, ” segir hún.

Afklæðir hann sig nú og fer upp í . Sofa þau nú fram eftir deginum eins og þeim líkar og er mælt að henni hafi líkað drengurinn allvel er honum fór að hlýna. Sendir hún síðan til piltanna og biður þá að koma og sjá hvar Hjalti var og heimtar nú af þeim fé það sem þeir lofuðu og svo var hún ráðrík að þeir máttu til að inna það af hendi. Oft hafði Anna haft um orð hvað fögur væri augu í Hjalta.

Upp frá þessu sænguðu þau Anna og Hjalti saman og fóru að eiga börn. Fyrir þessar framferðir reiddist Páll, bróðir Önnu, svo ákaflega að hann sat um  líf Hjalta og setti allar þverspyrnur við veru hans á Borg sem hann kunni. Hafðist Hjalti þá við á ýmsum stöðum. Mælt er að hellar væri fyrir framan Stóruborg og væri í þá stuttur sprettur heiman úr Stóruborgarhólnum. Voru hellar þeir kallaðir Skiphellar því að inn í þá settu menn skip sín. Þar hafðist Hjalti við um stund. Hest átti hann brúnan að lit, mesta afbragð. Var það lífhestur hans. Ekki leið á löngu áður Páll, bróðir Önnu, fékk njósnir af því hvar Hjalti hefðist við og fór með margmenni til hellanna. Kom hann þar að Hjalta óvörum svo að hann hafði ekki annað fangaráð en hlaupa á bak á Brún og hleypa undan. Eltu menn hann en svo var Brúnn góður hestur að skjótt bar hann undan úr sýn þeirra.

Þá bjó í Dal Eyjólfur Einarsson – og Hólmfríðar Erlendsdóttur föðursystur Önnu – og voru þau Anna og hann systkinabörn. Hann skaut þá skjólshúsi yfir Hjalta. Segja sumir að hann kæmi honum til Markúsar Jónssonar á Núpi, sem átti Cecilíu Einarsdóttur á Múla, systur Eyjólfs, en Markús keypti trúnað bónda þess er bjó á Fit og kæmi honum í Fitjarhelli og skammtaði honum mat og mátti Hjalti vitja hans á vissum stað. Þar var Hjalti svo árum skipti. En er hann varð sýkn nefndi hann hellinn í virðingarskyni Paradís og er hann nú ýmist nefndur Paradís eða Fitjarhellir. Segja sumir að hann hafi haft sér það til afþreyingar að rista rúnir á hellisbergið og séu þær ristingar sem enn í dag má sjá í hellinum allar eftir Hjalta.

Munnmælin um vist Hjalta í Paradís kveðst Jón í Steinum hafa heyrt ungur og sannar Páll í Árkvörn þá sögu. Aðrir segja að hann hafi haft aðsetur sitt í helli þeim hjá Seljalandi er kallaður er Kverkarhellir og verið undir vernd bóndans á Seljalandi. En þótt hann væri svona ofsóttur var hann þó alltaf með annan fótinn á Stóruborg hjá Önnu og var að geta börn með henni. Sagt hefur mér verið, segir Steina-Jón, að þau hafi átt svona saman átta börn.

Einu sinni kom Páll, bróðir Önnu, svo að henni að Hjalti var hjá henni. Sá hún þá ekkert annað undanbragð en læsa hann í kistu sinni. Leitaði Páll þá Hjalta alstaðar þar sem honum gat til hugar komið en Anna sat á kistu sinni og gaf sig ekki að því. Páll spurði hana hvað væri í kistunni en hún kvað það barnaplögg sín. Svo varð Páll reiður Önnu fyrir allt þetta framferði hennar að hann gerði hana arflausa.

Eitt sinn reið Páll lögmaður austur undir Eyjafjöll með sveinum sínum en þá féll Markarfljót austur undir Fjöll og austur hjá Fit og var illt yfirferðar. Þegar lögmaður reið yfir fljótið datt hesturinn undir honum svo að hann féll af baki í fljótið og flaut fram eftir því en sveinum hans féllust ráð og handtök. Þá spratt maður upp þar skammt frá í brekkunni, undan stórum steini, hljóp fram að fljótinu, kastaði sér í það þar gagnvart sem lögmaður flaut og gat náð til hans, svam með hann til lands og hljóp þegar óðfluga á leið til Paradísarhellis, því að þar er vígi svo gott að einn maður getur vel varist þar þótt fjöldi sæki, en Hjalti var fullhugi mesti og hinn fræknasti. Lögmaður var dasaður mjög en þó með fullri rænu og spyr pilta sína:  “Hver var svo frækinn sveina?”

Allir þögðu fyrst litla stund þar til einn þeirra svarar:  “Hjalti, mágur þinn.”

Þá svarar lögmaður:  “Þegja máttir þú, því þögðu betri sveinar,” og rak honum löðrung.

Eftir þetta mýktust skapsmunir Páls lögmanns við Hjalta. Og er systir hans frétti það þá tók hún það ráð með tillögum vina sinna að senda syni sína, sem þá voru nokkuð á legg komnir, til lögmanns til að biðja föður sínum griða. Gekkst lögmanni þá hugur við bæn systur sinnar og sveinanna og lífgjöf Hjalta við sig og er sagt hann hafi síðan gift honum Önnu og gert hana arftæka eftir föður sinn og hafi þau Hjalti búið að Stóruborg og síðan í Teigi í Fljótshlíð sem var langfeðgaeign þeirra forfeðra Önnu. Sagt er að Anna hafi ekki orðið langlíf og hafi hún látist úr sótt. Ekki er þess heldur getið að þau hafi börn átt er á legg hafi komist eftir að Hjalti fékk frelsi. En margt fólk er af þeim Hjalta og Önnu komið sem enn lifir.

Þessi saga er byggð á handritum nokkurra manna og tekin úr tveimur þjóðsagnasöfnum en hér er hún höfð orðrétt en greinaskilum breytt eins og hún stendur í bókinni:   Íslenskt þjóðsagnasafn, 2. bindi. 2000. Ólafur Ragnarsson, Sverrir Jakobsson og Margrét Guðmundsdóttir sáu um útgáfuna. Reykjavík, Vaka-Helgafell. Bls. 57-61

 

 

 

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.