Haugar fornkvenna í Holtum

Arnkalta og Bera hétu systur sem ólust upp í Holtunum til forna. Þær eru sumsstaðar sagðar dætur Jólgeirs landnámsmanns á Jólgeirsstöðum skammt frá Seli í Holtum. Aðrar heimildir telja þær dætur Þórarins bónda á Þórarinsstöðum sem stóð þar sem nú er land Berustaða. Báðir þessir bæir eru fyrir löngu komnir í eyði. Á Þórarinsstöðum má enn sjá bæjartættur og fjárhús voru þar uppistandandi fram eftir öldum. Þær Arnkatla og Bera urðu ósáttar, svo mjög að þær vildu ekki eiga kirkjusókn á sama stað en báðir bæirnir eru nágrannabæir Áss sem var kirkjustaður. Arnkatla fékk biskupsleyfi til að sækja kirkju í Árbæ en Bera í Kálfholti og var fyrir báðar um langan og vondan veg að fara. Hefur þessi skipan síðan haldist og réðu
sóknarmörk hreppaskiptingu Holtahrepps og Ásahrepps. Þessvegna er það að Arnkötlustaðir mynda eins og tungu úr Holtahreppi inn í Ásahrepp. Arnkatla er heygð í Kötluhól í túni Arnkötlustaða en Bera í Torfholti, norðaustur frá bæjartúni Berustaða. Munnmæli á Arnkötlustöðum herma að í Kötluhól hafi Arnkatla verið heygð með skipi sínu sem hún hafi siglt upp ósa allt að Arnkötlustöðum meðan vötn stóðu hærra en nú er. Hvort sem það er rétt þá er Kötluhóll afar sérstæður, um 25 metra aflangur hóll rétt vestan við bæjarhús á Arnkötlustöðum. Menn hafa látið sér detta að hóll þessi manngerður en bannað er að hrófla við honum þó svo að hann sé sleginn, nú hin seinustu ár með vélorfi. Sú saga er sögð í örnefnaskrá Berustaða af endalokum þeirra systra Arnkötlu og Beru að þær deildu mjög um landamerki. Kom þeim loks saman um að báðar skyldu hlaupa á sama tíma heiman að frá sér og yrði merkin þar sem þær mættust. “En báðar biðu bana í þessum kappleik.”(GJ IX, 78, Örnefnaskrár Herríðarhóls og ÁÓ 1962, 18, Ísl. I, 217,örnefnaskrár Berustaða, Arnkötlustaða og Herrríðarhóls, LóaJ, SalvH, StR)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.