Helgi borgari Þórarinsson í Þykkvabæ

Þykkvibær í Landbroti

Þykkvibær í Landbroti árið 1910. (Eig. EB)

Hér segir Þorbjörn Bjarnason (1895-1971) frá Heiði á Síðu frá Helga Þórarinssyni (1861-1915) bónda í Þykkvabæ í Landbroti. 

Helgi Þórarinsson bjó í Þykkabæ í Landbroti um aldamótin 1900. Hann var kallaður Helgi borgari vegna þess að hann fékk útgefið borgarabréf frá sýslumanni til að hefja verslunarrekstur. Hann verslaði í mörg ár og það voru þægindi fyrir marga því það var erfitt að sækja í kaupstað fyrir marga í gamla daga. Þetta kom sér sérstaklega vel á vetrum.

Helgi var framtakssamur maður, hann raflýsti bæ sinn. Það var þannig að hann frétti að bóndi á Bíldsfelli í Grafningi hefði raflýst og hann tók sér ferð á hendur til að skoða rafstöðina þar. Eftir það lét hann raflýsa og fékk Halldór Guðmundsson rafvirkjameistara sem var ættaður úr Mýrdalnum til þess að setja upp stöðina. Og hún gengur enn [1970].

Þykkvabæ fylgdi lítil fjara. En þegar Guðlaugur sýslumaður flutti í burtu og Lárus Helgason frá Fossi fékk Klaustrið, þá vantaði honum peninga, svo að hann tók fyrir að selja Helga Kirkju- og Brúarfjöru. Og mig minnir að hann hafi selt hana á 1600 krónur. Þannig gat hann nú keypt Klaustrið en þetta var stórskaði fyrir hann að missa fjöruna því að það rak svo mikið á hana. En Helgi græddi á þessu því þarna fékk hann nóg timbur til húsagerðar. Og þessi fjara fylgir ennþá Þykkvabænum.

Helgi Þórarinsson byggði upp bæinn sinn úr steini. Hann fékk smið úr Reykjavík til að byggja bæinn, Samúel Jónsson föður Guðjóns Samúelssonar húsameistara, og var GuðJón þá með, hann var að læra smíði. Þetta voru skemmtilegir menn.

Helgi stundaði vel búskapinn á Þykkvabæ, þetta var góð jörð og miklar áveitur sem nú eru uppfylltar af sandi. Það voru mikil flóð og jörðin grafgefin. En það var erfitt verk að hirða þetta því það þurfti að flytja það allt heim í votabandi og þurrka það þar á túni. Helgi átti stóra hlöðu sem mun hafa tekið um þúsund hesta, það stendur nú eitthvað af henni ennþá, hún var vel byggð. Hann hafði hlera á þakinu til að hann yrði fljótari að losa vagnana. Því hann fékk sér vagna þegar þeir komu austur í Skaftafellsýslu, hann var fyrsti maðurinn til þess. Og þegar hann var í vegavinnu vildi hann hafa brýrnar það breiðar að vagnar kæmust yfir þær því hann sagði að það myndi ekki líða á löngu þar til þeir kæmu. Enda varð það raunin á.

Helgi keypti líka fé og rak til Reykjavíkur, hann rak alltaf að fjallabaki og hann var árvakur á morgnanna, hann var kominn á undan sínum rekstrarmönnum á fætur til að koma öllu af stað. Þetta gekk nú allt vel hjá honum. En svo þótti Skaftfellingum hann láta þá hafa heldur lítinn ágóða af fénu sem hann seldi og þá fengu þeir Björn Runólfsson í Holti til þess að fara og reka suður og selja, og það gekk nú öllu betur. En það gekk þó ekki nema í þrjú til fjögur ár.

 

Sagnir Þorbjarnar Bjarnasonar (SÁM 90/2308; 90/2309 og 90/2336. Viðtöl Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í júní  og október 1970 sjá https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1012477;  og https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1012809 

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.