Leiðvöllur

Jörðin Leiðvöllur í Meðallandi var forn þingstaður. Hún fór í sand eins og margar aðrar jarðir í Meðallandi um miðbik 20. aldar. Hún var þó nytjuð af ábúandanum á Melhól eftir það, GíslaTómassyni (1897-1990) sem hér segir frá fornminjum við Leiðvöll.

Á Leiðvelli er hóll sem heitir Krummhóll, hann var talinn kirkja huldufólks. Það mátti ekki slá nema að hólnum en ekki upp í hann. Leiðvöllur var merkur staður en þar voru haldin leiðarþing í fornöld, meðal annars af Flosa á Svínafelli. Hann hafði þing sem náði út að Markarfljóti og austur að Lónsheiði, það voru allt hans þingmenn á þessu svæði. Þarna mátti telja 22 búðarústir þegar ég kom fyrst hér, sem þeir höfðu þarna á staðnum. Þetta hafa bara verið lágar hleðslur og tjaldað yfir, það voru ekki fullbyggðir veggir. Þær lágu í hring, vestan í háum hól, í kringum dómhring þar sem dæmt var í málum manna. Þarna er dalur á milli hólanna sem heitir messudalur, eftir að kristnin kom messuðu þeir þar yfir þingheimi. Þessar búðartóftir eru nú friðlýstar og það má ekkert hreyfa þar. Jörðin fór í sand 1944 og þá var hætt að búa þar og síðasti ábúandinn fór víst með friðlýsingarplaggið með sér og það hefur ekki fundist síðan.

Frásögn Gísla Tómassonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í maí 1984 (SÁM 93/3431): https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1040527

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir á Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.