Móri í Meðallandi

Hér segir Gísli Tómasson (1897-1990) frá Melhól í Meðallandi frá fylgjudraug frá Eyrarbakka sem flutti búferlum í Meðallandið á fyrri hluta 20. aldar.

Hér í Meðallandinu var draugur utan að Eyrarbakka. Það tók hann að sér maður héðan úr hreppinum, hann var sjómaður, og varð einu sinni tóbakslaus á Eyrarbakka. Og það var einhver maður sem bauðst til að láta hann hafa tóbakspund ef hann tæki líka það sem fylgdi sér. Hann gerði það, taldi ekkert athugavert við það, og tók við þessu. Og þessi draugur var strákur, hreint ekki fallegur útlits, því hann sá ég oft. Hann gerði mér nú einu sinni bölvaðan grikk, tók ísköldum krumlum um kinnar á mér, og ég hentist upp úr rúminu. Við hjónin sváfum þá í sitt hvorum endanum á rúminu og með sitt hvort barnið, og ég leit aftur fyrir rúmgaflinn. Konan hrökk upp við þessi ósköp og spyr hvað gangi á. Og ég sagði henni að það yrði sjálfsagt eitthvað snemma sem hann kæmi hann Valdi núna. Og klukkan sex um morguninn var hann sestur við höfðalagið hjá mér.

En svo hefur þessi draugur sjálfsagt dáið út með kallinum. Hann átti engin börn, átti ekkert nema systkini og draugurinn hefur víst ekkert verið tengdur þeim. Að minnsta kosti hef ég ekki séð hann síðan. En svo heyrði ég nú einu sinni að andatrúarmenn hefðu verið að leita uppi draugana á Eyrarbakka og Stokkseyri og vantað einn. Og eftir lýsingunni passaði hún akkúrat við þennan strákpatta. Þetta var svona eins og tíu ára strákur, eða þar um bil, með ljótan hattkúf og í lörfum.

Frásögn Gísla Tómassonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í maí 1984 (SÁM 93/3430): https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1040525

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.