Huldukindurnar í Botnum

Hér segir Eyjólfur Eyjólfsson (1889-1983) hreppstjóri á Hnausum í Meðallandi frá huldukindum sem hann sá þegar hann var að alast upp á bænum Botnum í sömu sveit.

Ég er fæddur og uppalinn á Botnum í Meðallandi. Þar gekk fénaður á högum nokkuð mikið á vetrum. Einu sinni kom krapabylsgusa, og þegar henni slotaði fór ég að gæta að fé þar fyrir sunnan bæinn. Þegar ég er kominn svona fjörtíu mínútna gang frá bænum þykist ég sjá kindur á þeim stað sem ég átti nú ekki von á að sjá þær. Ég sá þær fyrst á sléttu, svo fór ég upp á háa hraunbrún og sá þær líka þaðan. Ég var með kíki í vasanum og tók hann upp og bar að augum mér og sá þær í kíkinum. Þarna voru nokkrar kindur að krafsa á þessum stað, þar sem ekki var von á að fé væri frá neinum bæ. Svo fer ég þarna niður af brúninni og í áttina til þessa staðar. Ég sé þær náttúrulega ekki þegar ég er komin niður á sléttuna. Svo óð ég yfir svolítinn ál og kom nákvæmlega á sama blettinn og mér hafði sýnst kindurnar vera á. Mig minnir að þær væru sjö að tölu. En þegar ég kem á staðinn þá sé ég ekkert kindafar og engin vegsumerki um að þar hefðu kindur verið. Var ég þó alveg viss um það, þegar ég komst á þennan stað að ég væri á réttum stað. Og veit ég ekki hvaða kindur þetta hafa verið og skrítið er það að ekki hafi verið nein vegsumerki eftir þær þar sem þarna var nýfallinn snjór og enginn vindur sem hefði getað fennt yfir förinn.

Eftir sögn Eyjólfs Eyjólfssonar. Viðtal Jóns Samsonarsonar og Helgu Jóhannsdóttur í júní 1970 sjá https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1022165

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.