Franska strandið

Árið 1935 strandaði franska skútan Lieutenant Boyau á Slýjafjöru í Meðallandi og varð manntjón í strandinu sem var sjaldgæft að henti í ströndum á Meðallandsfjörum. Hér segir Eyjólfur Eyjólfsson (1889-1883) hreppstjóri á Hnausum í Meðallandi frá strandinu og svip sem hann sá á strandstaðnum eftir slysið. 

Hér í Meðallandinu hafa skip strandað öllu þéttar heldur en annarsstaðar. Gísli Sveinsson var sá sýslumaður sem lengst þjónaði hér, og hann sagði að Skaftafellssýsla væri mesta strandasýsla landsins. Meðallandið var þó höfuðpunkturinn þar. Síðan svona 1920 hafa strandað rúmlega 30 skip í Meðallandi, þar á meðal eitt franskt. Það var úti sá tími sem að frakkar strönduðu hér tíðast þegar þeir voru hér á seglskútunum sínum, þá komu þeir nú oft í land. En í þetta skiptið vildi svo til að það strandaði franskt skip, og gekk því mjög illa að stranda. Það  var list að stranda hér, það þurfti að halda sig við skipið í lengstu lög, og sakkast alltaf nær og nær landi. En þetta skip sakkaði ekki nær landi, og kom fram síðar að það hafði strandað á flaki af öðru strandi sem var þar hulið í sjónum. Og því komst það ekki lengra upp og því var hættan meiri fyrir strandmennina, og fórust af þessu strandi fimm menn en af öðrum ströndum hér frá 1920 hafa ekki farist menn, nema þessu eina.

Svo leið nú og beið, strandmenn voru fluttir og skipið var þarna og var svo rifið um vorið, þegar strandið gekk fram og aðstæður sköpuðust til að rífa það. En nokkru eftir að skipverjarnir voru farnir fór ég á fjöru til að gá að reka. Þá þykist ég sjá mann á hlið við mig koma ofan úr melunum og stefna til sjávar mjög nærri strandstaðnum. Hann var ólíkt búinn og menn hér, gangandi í stórum sjóstígvélum berandi stóra kápu á handlegg sér. Hann gekk þarna suður að strandinu og lítið eitt austur með sjónum og hvarf svo. Ekki gat ég komist að því hvaða maður þetta var og gat nokkurnmegin gengið úr skugga um það að það hefði enginn farið á fjöru í þetta sinn, enda líka sýndist mér búningurinn á manninum vera þannig að hann væri ekki Meðallandslegur.

Sögn Eyjólfs Eyjólfssonar. Viðtal Jóns Samsonarsonar og Helgu Jóhannsdóttur í júní 1970 sjá https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1022164

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir á Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.