Fleira frá Loðna manninum á Skarði

Meðallendingar kunnu margar sögur af Loðna manninum á Skarði og reimleika af hans völdum á Skarðsmelunum á milli Hnausa og Staðarholts. Hér segir Einar Sigurfinnsson (1884-1979) frá Háu-Kotey í Meðallandi frá reimleikum á Skarðsmelunum.

Það rak á Meðallandsfjörur mann, ef mann skyldi kalla, því hann var allur loðinn. Þá var kirkja á Skarði. Manninum var gerð kista og hann var grafinn á Skarði. En þegar það átti að fara að syngja yfir honum, þá gátu söngmennirnir ekki lesið á sálmabókina það sem þeir vildu syngja, það var allt einhvernmegin umhverft fyrir þeim. Þessvegna töldu menn að þetta hefði verið einhver fjandi eða óvættur mikill. En samt er þessu holað niður í jörðina eins og til stóð. En alltaf síðan hefur þótt reimt á þessum slóðum, Skarðsmelunum sem kallaðir eru, á milli Hnausa og Staðarholts.

Stefán Hannesson á Hnausum sem var fæddur þar og uppalinn, og bjó þar til elliára, fróður maður og athugull, honum var sárilla við það að menn færu suður frá Hnausum eftir að dimmt var orðið eða ef eitthvað var að veðri. Hann sagði að það væri stórhættulegt. Einu sinni var ég sjálfur á ferð og kom að Hnausum, ég var að koma ofan úr Landbroti og það var farið að dimma þegar ég var búinn að þiggja þar góðgerðir. Og þá segir Stefán: ,,Þú mátt ekki fara, það er farið að dimma. Ég vil ekki að neinn fari frá heimili mínu hérna suður yfir Mela þegar það er orðið dimmt.“ Ég sagðist nú treysta mér svo vel til að rata og ég væri nú vel ríðandi og þóttist fullviss um að komast heim. ,,Jæja, fyrst þú ert ófáanlegur til að bíða, þá tek ég þér þó vara fyrir því að passa að vera alltaf norðan megin við stikurnar“ segir Stefán þá. Eftir þessu fór ég auðvitað og komst heilu og höldnu.

Fleiri menn urðu fyrir villum þarna. Einu sinni var maður að koma norðan frá Síðu, hafði verið að flytja lækni og var með þrjá hesta. Hann átti leið um kirkjumelana um kvöld. Hann var með tvo unga hesta sem voru ekki mikið vanir ferðalögum og teymdi þá báða, en þriðji hesturinn sem han reið, var alvanur ferðahestur. Nú vill svo til að hann kemur hestinum ekki úr sporunum, á miðri leiðinni á milli Hnausa og Staðarholts. Ungu hestarnir prjónuðu og frísuðu og létu öllum illum látum en eldri hesturinn stóð eins og steinn, grafkyrr. Þessi maður var einbeyttur og vanur öllum ferðalögum, og þótti þetta nú skrítið en vildi nú ekki láta hlut sinn. Svo hann fer af baki og þreifar fyrir framan hestana í kolsvörtu myrkrinu til að kanna hvort nokkuð sé þarna fyrir sem sé hættulegt. En þarna var ekkert. Þá sagðist hann hafa lamið allt í kring, sandinn, með stórri svipu sem hann var með í hendinni. Þá náði hann loksins að teyma hestana áfram spölkorn og komst síðan loksins á bak og gat haldið leiðar sinnar. Þetta og fleira var Loðna manninum kennt.

Sögn Einar Sigurfinnssonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í desember 1964 (SÁM 93/3622) sjá https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1046783

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.