Ferstikla

Hér segir Einar Sigurfinnsson (1884-1979) frá Háu-Kotey í Meðallandi frá álagablettinum Ferstiklu.

Holtarimin nær svona hér um bil sunnan frá Koteyjarbæjum og upp undir fremsta Efri-Eyjarbæinn, Hól. Hann var oft genginn en sjaldan farinn ríðandi því það er lækur á honum sem er ekki hægt að fara með hesta yfir en menn geta hlaupið yfir. Hann heitir Barnakíll. Rétt norðan við Barnakílinn er bali, lágur aflangur og ferhyrndur sem kallaður er ýmist Ferstikla eða Ferhyrndi bali. Smá vörður eru á hornum hans, öllum fjórum, þær eru sjáanlega hlaðnar einhverntíma í fyrndinni af mönnum. Þessu bala fylgir sá orðrómur að það eigi alls ekki að slá hann, þá muni hljótast eitthvað illt af. Og mér var sagt, þegar ég var krakki og var sendur þarna sunnan frá Kotey út að Efri-Ey, að ég skyldi ekki ganga yfir Ferstikluna, síst af öllu þegar farið var að skyggja. Það gerði ég ekki heldur þegar ég var krakki en nokkuð oft síðan. En einhverntíma átti Meðallandspresti sem hét Halldór að hafa orðið hált á því, hann kom ríðandi að Ferstiklu og datt þar af baki og dó af byltunni.

Eftir sögn Einars Sigurfinnssonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í desember 1964 (SÁM 93/3623)  sjá: https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1046795

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.