Reimleikarnir á Fljótum

Strönd í Meðallandi

Hér segir Þorbjörn Bjarnason (1895-1971) frá Heiði á Síðu frá reimleikum sem áttu sér stað á Fljótum í Meðallandi skömmu fyrir aldamótin 1900 sem segir frá víðar. Þessa sögu hefur hann eftir Elíasi Elíassyni (1880-1969) frá Syðri-Steinsmýri sem hafði atburðina beint eftir nágrönnum sínum á Fljótum sem fyrir reimleikunum urðu. Að sögn Þorbjarnar fluttist Elías þessi síðar til Vesturheims og tók meðal annars þátt í hernaði í heimstyrjöldinni fyrri þar sem ,,það var skotið í gegnum hann en hann lifði nú samt og komst yfir nírætt í Kanada”.  

Á Fljótum í Meðallandi bjó bóndi sem hét Sigurður. Hann hafði smiðju. Áður en hann dó lagði hann það fyrir að það mætti ekki hreyfa neitt í smiðjunni í þrjú ár. En svo varð Ásbirni, bóndanum þar það á, að hann tók járnkarl þaðan og notaði fyrir hesta. Nóttina eftir var komið inn í bæinn, mjög harkalega, og farið inn í herbergi hjá móður Ásbjarnar og þar hrynur allt úr hillunum í gólfið. Hún hleypur með hljóðum inn til Ásbjarnar, en þau þurftu auðvitað að vera þarna um nóttina. En síðan byrjuðu högg, og þau héldust í þrjú ár þangað til þetta var úti. Og Sigurður átti að hafa komið inn að rúmi Ásbjarnar, mjög reiðilegur, en Ásbjörn haft að koma honum út. Á þessu gekk allan tímann í þessi þrjú ár.

Eiríkur Sverrisson gerði vísu um þetta, hann var nú ekki trúaður á þetta. En vísan er svona:

Austursveitum fregn sú frá

Fer með hætti ljótum

Að afturgenginn sumir sjá

Sigurð gamla á Fljótum

Sögn Þorbjarnar Bjarnasonar (SÁM 90/2300). Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í júní 1970 sjá https://www.ismus.is/i/audio/uid-d25ad8d3-fe5f-4a1b-8c5c-bde830207c0f

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin

Tengdar sögur

Strönd í Meðallandi
Allar sögurnar

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.

Strönd í Meðallandi
Allar sögurnar

Skatan í Þverá

Jón magnar upp skötu til að stýra landbroti á bökkum Þverár.