Það þótti ekki ráðlegt að veiða í Fljótsbotninum
Í landnorður frá Botnum í Meðallandi er stöðuvatn eitt, sem kallað er Botnakrókur. (Í dag nefnt Fljótsbotn.) Er það í einni kverk Skaftárhraunsins frá 1783, og ætla menn að það fái vatnsmegin sitt undan hrauninu, og úr því rennur Eldvatnið í Meðallandi. Botnakrókur kvað vera ákafleg djúpur, og svo mikil ókjör voru þar af silungi, að hann óð uppi í torfum í yfirborðinu. En ótrú var á því að veiða silunginn, og alla þá tíð, sem Erasmus hinn gamli bjó í Botnum, en það hefur verið nær 60 ár, lét hann aldrei veiða þar sjálfur né leyfði öðrum að gera það, þó að krókurinn væri fullur af fiski. Erasmus lézt 1873 fjörgamall.Þótti ýmsum ungum mönnum þá fýsilegt að reyna silungsveiði í Botnakróki og töldu ótrú þá, er á því lægi, bábilju eina.
Olgeir hét sonur Þorsteins í Króki í Meðallandi Sverrissonar, skotmaður hinn bezti og veiðimaður, harðgerður og þá ungur, Hann falaði leyfi hjá Karitas Brynjólfsdóttur prests Árnasonar, ekkju Erasmusar, til að veiða í króknum, og fékk ekki afsvar um það, þó að bæði henni og öðru Botnafólki væri reyndar lítið um, að farið væri að taka upp á þessu.
Er ekki að orðlengja það, að Olgeir tekur til að veiða í króknum haustið 1874 eða 1875, og hafði hann litla kænu til veiðanna, svo að hann gæti komizt út á vatnið. Gekk svo um hríð, og bar ekki neitt á neinu. Veiddist þar ógrynni silungs, en að lyktum tók Olgeir eftir því, að farið var að fækka um fiska í vatninu, en fram hélt hann veiðiskap sínum eigi að síður.
Eina nótt í tunglsljósi og góðu veðri er hann sem oftar á kænu sinni við veiðiskap úti á vatninu og veiðir þá lítið eða ekki, en þegar hann er á leið til lands, sér hann hvar özlar að bátnum skepna ein heldur en ekki ófrýnileg, líkust stórri skötu. Var þar komin silungamóðirin og leggur annað barðið upp á borðstokk kænunnar og vildi hvolfa henni. En af því að Olgeir var knár maður, náði hann heilu í land, og upp frá því hætti hann veiðinni. Olgeir fór síðan út í Selvog og dó þar litlu fyrir 1890. En sjálfur sagði hann frá sögu þessari og kvaðst aldrei framar skyldu ráða neinum til að veiða í Botnakrók.
Jón Þorkelsson. 1956. Þjóðsögur og munnmæli. Bókfellsútg. Rv. s. 216