Loðni maðurinn á Skarði

Loðna manninn rak á land á Meðallandsfjörum og var reynt að jarða hann í Skarðskirkju.

Það hefur alloft borið við, að lík sjódrukknaðra manna hafi rekið á land á Meðallandsfjörum. Oft er þetta í sambandi við skipreika, er orðið hafa þar í grenndinni, þar sem einhverjir af skipshöfnunum hafa farizt, en stundum er ekki hægt að vita nein deili á, hvaðan af landi eða löndum líkin eru.

Það bar við fyrir löngu, að á fjöru einni í Meðallandi fannst rekinn maður nokkur, sem þótti mjög einkennilegur útlits. Klæðlaus var hann, en allur kafloðinn og með klær á tám og fingrum. Sumir segja, að tvo slíka menn hafi rekið, báða eins. Enda þótt öllum stæði stuggur af líki þessu, þá var það þó flutt til bæjar og því gjörð kista, eins og venja er til, er svo ber undir.

Þá var enn kirkja á Skarði í Meðallandi og kirkjugarður á sama stað. Sá staður er nú fyrir löngu eyddur af sandfoki með hjáleigum sínum. Að Skarði var líkið flutt til greftrunar. En er jarðarförin skyldi hefjast og menn ætluðu að byrja að syngja útfararsálmana, komust þeir í vandræði, því hver stafkrókur ígrallaranum var orðinn öfugur og umsnúinn í guðlast og formælingar. Þótti mönnum þetta kynlegt, sem von var, og stóðu ráðþrota. Varð heldur lítið úr líksöngnum. Ekki tók betra við, er presturinn skyldi mæla yfir líkinu. Jafnvel blessunarorðin umhverfðust í blótsyrði á vörum hans, svo hann hlaut að hætta. En þrátt fyrir undur þessi, mun líkið hafa hlotið leg þarna í vígðum reit og verið moldu ausið af presti, eins og til stóð.

Voru nú leiddar margar getur að því, hver sjórekni maðurinn hefði verið. Skýringar manna á því voru einkum þrjár: að hann hefði verið Hund-Tyrki, illur andi, holdiklæddur, eða þá api. En hvernig sem því var farið, þá er víst, að ekki leið á löngu eftir jarðarför þessa, unz vart þótti verða við reimleika í nánd við Skarðskirkju. Kvað svo rammt að því, að ófært þótti að vera þar á ferli, er dimma tók. Sáu ófreskir menn þá loðna manninn, – eins og nú var farið að nefna líkið nýjarðaða, – lemja kirkjuna að utan með fjölum úr kistu sinni. Ýmis fádæmi önnur gerðust þar. Skal því við bætt, að eftir jarðarför þessa og æ fram á þennan dag þykir mjög villugjarnt á Kirkjumelunum svonefndu.

Nú orðið er stikaður og nokkuð fjölfarinn vegur á milli bæjanna Hnausa og Langholts í Meðallandi, og er hann á kafla mjög nálægt þeim stað, þar sem Skarðskirkja var áður. En þar hefur komið kynlega oft fyrir, að menn hafa farið villir vega, ef á ferð hafa verið í dumbungi eða dimmviðri. Hestar hafa og verið annarlega fælnir og óratvísir á þessum vegarkafla í slíku veðri, svo að ekki hefur bætt úr skák að láta þá ráða ferðum.Fyrir löngu bjó prestur sá á Hnausum, er Jón hét. Vetur einn var hann á heimleið um Meðallandið, seint um kvöld. Veðri var þannig farið, að dumbungur var og mjög skuggsýnt. Presturinn var þaulkunnugur á þessum slóðum, og þótti dimman því ekkert saka. En þegar hann er kominn út á kirkjumelabrautina, verður hann bráðlega ramáttavilltur. Er hann nú að villast um sandinn lengi nætur. Heimilisfólk prests átti von á honum þetta kvöld. En þegar það fer að lengja eftir honum, setur það ljos út í glugga, þar sem víða mátti sjá það að. Undir morgun komst prestur loks heim, magnvana og dasaður mjög eftir villuna á þessum kunnugu slóðum. Sagði hann fátt af ferðum sínum. En þegar hann var spurður, hví hann hafði ekki stefnt á ljósið heima, sem hann hlyti þó að hafa séð, andvarpaði hann og sagði: “Ljósin voru svo mörg, að ekki var fyrir nema fjandann sjálfan að vita, hvert væri hið rétta.”

Stefán hét bóndi, er bjó á Hnausum, var fæddur og ól þar allan sinn aldur. Honum þótti miklu miður, ef menn fóru suður á Kirkjumela seint að kvöldi eða hvenær sem var í ótryggu útliti. Lagði hann oft blátt bann við, að þeir, sem um garð fóru á Hnausum – hvað þá heimilisfólk hans – gerði svo. Þó eru engar hættur í venjulegum skilningi.

(Einar Guðmundsson. 1932. „Loðni maðurinn á Skarði.“ Íslenskar þjóðsögur I. Ólafur Erlingsson var kostnaðarmaður útgáfunnar, Rv. s. 12-15) (Sagan er stytt og er ítarlegri í bókinni.)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.