Skrímsli í Þjórsá

Margir sáu skrímsli í Þjórsá en ekki ber saman lýsingum á útliti þeirra. 

Stórt skrímsli er í Þjórsá neðarlega skammt frá bænum Sandhólaferju þar sem var aðal ferjustaður árinnar áður en hún var brúuð fyrir rúmri öld síðan. Fyrstur sá skrímsli þetta svo skrásett sé var Þórður sterki Þórðarson ferjumaður sem bjó síðustu æviár sín í Sumarliðabæ í Ásahreppi og lifði laust fram yfir aldamótin 1900. Hann lýsti skrímsli þessu svo að fyrst sá hann ferlíki mikið sem lá kyrrt á vatnsskorpunni og reri hann þá nær til að skoða það. Skyndilega brá það við og stefndi á bát Þórðar, þetta var “fyrna skriðmikil skepna og ferleg á að líta, breiðvaxin með trjónu að framan og hóf hana úr ánni annað veifið…” Skepnuna sagði Þórður hafa verið að lögun einna líkasta skemmuþili og þótti honum stefnt að sér ofurefli. ” Enda seig hann á árarnar sem mest hann mátti. Munaði þó litlu að skrímslið næði til hans. Þessi atburður varð fyrir miðja 19. öldina en síðar sáu skrímsli þetta margir allt fram á miðja þessa öld. Síðast sá það bóndinn í Sandhólaferju um 1950 en sú sjón var mjög frábrugðin því sem Þórður sá.

Bóndi var að huga að kindum skammt frá árbakkanum þegar hann heyrði skelli mikla í vatninu og sá þá þar hvar armur einn dökkur og digur hófst úr ánni ekki langt frá landi. Honum sýndist börð eða blöðkur þar á til beggja hliða líkt og á stórum sporði. Er talið að þetta geti hafa verið sama skrímslið og Þórður sá en þeir séð hvor sinn hlutann af þessari gríðarskepnu.

Þjórsárskrímsli hafa einnig sést á Skeiðunum í Árnessýslu, síðast frá Skeiðháholti um 1960. Elías Halldórsson (1877 – 1967) frá Sandhólaferju segir í endurminningum sínum í bókinni Heiðinginn: “Oft hafði fólkið á Sandhólaferju þózt sjá skrímsli í Þjórsá. Ég sá oft þessi skrímsli. Það voru rofhnausar úr bökkum upp með ánni, sem straumurinn velti niður ána og komu upp þar sem grunnbrot voru. Hins vegar heyrði ég, þegar ég var drengur, tvær sögur af skrímsli í Þjórsá, sem virtust hafa við nokkur rök að styðjast,” segir Elías og birtir stórmerkilega frásögn af skrímslum sem kelfdu kýr og fyljuðu merar.

(HH1, Goðast. 21. – 22. árg., 107, EH 1956, 27).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.