Ófullburða fóstur veldur reimleikum í Helli

Venja var að grafa ófullburða fóstur innandyra en hér var þess ekki gætt. 

Vetleifsholtshellir eða bara Hellir hét ein af mörgum hjáleigum Vetleifsholts, aðeins þriggja hundraða jörð og stóð afskekkt í hverfinu, um 2 km sunnan við höfuðbólið. En þrátt fyrir að vera kot bjó þar í eina tíð fjárflesti bóndinn í sveitinni, Jón Jónsson bóndi í Helli frá 1858 – 1884. Jón átti frá 600 til 700 fjár sem var fátítt á þeim tíma. “Kindatöluna skrifaði hann stórum stöfum með krít á súðina yfir rúmi sínu. Einn veturinn stóð þar þessi fallega tala 666. ”

Snemma á 20. öld urðu magnaðir reimleikar í Helli sem kenndir voru því að húsfreyja þar hafði alið ófullburða fóstur sem síðar gekk aftur. Var jafnvel talið að fóstrið hefði ekki fengið tilhlýðilega meðferð en venja að grafa slík jóð í gólfi innanbæjar. Afturgangan líktist helst stuttri slöngu, gljáandi og lýsti af henni. Mest ásótti Hellisdraugurinn húsfreyjuna á bænum. 1919 var brugðið á það ráð að rífa bæjarhúsin og byggja þau upp á öðrum stað. Tók þá að mestu fyrir reimleikana utan að öðru hvoru heyrðist undarleg hljóð við baðstofusúðina og úr gömlu tóftinni heyrðist öðru hvoru “angurshljóð, nístandi sárt og langdregið”.

(HH4.)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.