Reimleikar í Kambsrétt og Skessugróf í Sandskörðum

Margir kannast við reimleika í gömlu Kambsréttinni og var þar talin vera afturgengin förukerling og um Sandskörð fór skessa nokkur og var þar lengi uppblásturssvæði.

Kambsrétt sem var fyrrum eina byggðasafnsrétt Holtamanna var fyrst í Hreiðurslandi, uppi í Kambsheiðinni skammt frá þar sem heitir Forna – Hreiður og er gamalt bæjarstæði Hreiðurs en líklega var bærinn fluttur um 1800. Um 1880 voru réttirnar fluttar og settar niður skammt frá Lýtingsstöðum. Helgi Hannesson fræðimaður segir að ástæða flutninganna hafi verið reimleikar í Gömlu Kambsrétt. Draugurinn í gömlu Kambsrétt var afturgengin förukerling sem troðist hafði undir í dyrum almenningsins og hlotið bana af. Eftir það var algengt að fólk félli til jarðar í þessum sömu dyrum með froðufalli eða þá að allan mátt dró úr því þegar það kom þar. Eins varð mjög óhægt að reka inn í réttina og var eins einhver stæði í vegi fyrir fénu. Önnur sögn segir að það hafi verið stálpuð stelpa sem þarna tróðst undir og áttu skyggnir menn að sjá þarna stelpuhnokka á rauðum kjól. Í örnefnaskrá Hreiðurs er haft eftir sr. Benedikt Eiríkssyni sem lengi var prestur í Guttormshaga: “Hafi ég nokkurn tíma orðið var við myrkan illan anda, þá var það hjá Gömlu Kambsrétt.”

Kambsréttardraugurinn eða Kambsheiðardraugurinn eins og hann hefur einnig verið kallaður, á það til að villa mjög um fyrir þeim sem eiga leið um þessar slóðir eða glettast við þá á annan hátt. Eitt slíkt atvik varð laust fyrir aldamótin 1900 þegar bóndasonur frá Skammbeinsstöðum fór að vetrarkvöldi að sækja kind að Lýtingsstöðum. Á heimleið hafði hann kindina í bandi en móts við réttina sótti á hann slíkt máttleysi og svefn að hann nálega komst ekki áfram. Það er talið hafa orðið honum til lífs að hann batt bandið utan um sig og alltaf þegar hann var við það að sofna togaði ærin í. Ferðalag þetta sem ekki er langt tók þó alla nóttina því án þess að nokkur skýring fengist þar á villtist maðurinn aftur og aftur á þessum slóðum og lenti á sama stað, þar sem heitir í Sandskörðum. Alkunna er að reimleikar eru á þeim stað. Skömmu fyrir rismál náði hann þó bæ, þrekaður og lá rúmfastur lengi á eftir. Hermann Sigurjónsson í Raftholti kannaðist vel við sagnir um Kambsheiðardrauginn þegar bókarhöfundur ræddi við hann sumarið 2002. “Hann var þarna á ferðinni og villti um fyrir mönnum í þoku og slæmum veðrum,” sagði Hermann. Alfaraleið Holtamanna var um þessar slóðir og langt til bæja.

(HH1, GJ IX, 78, Örnefnaskrár Hreiðurs og Skammbeinsstaða, HermSigurj.)

Skessugróf í Sandskörðum

Sandskörð í Kambsheiði sem getið er í kaflanum um Kambsheiðardrauginn er tilkomin vegna þess að þarna um fór skessa ein með viðardrögur sínar. Grófin eftir skessuna liggur um svæði þar sem jarðvegur er fokgjarn. Á þessum slóðum var virkt uppblásturssvæði langt fram eftir 20. öld, m.a. í svonefndum Moldum.

(HermSigurj., JónaValdim., AlbertValdim.)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.