Sólheimatíra

Ekki var hægt að slökkva ljóstíruna

Á Sólheimum ytri vöktu einu sinni tveir menn yfir líki. Höfðu þeir sér það til skemmtunar að spila. Þeir urðu ljóslausir. Þá skáru þeir bita af ístru á líkinu og létu á bitann í skálanum þá er þeir höfðu á kveikt, og spiluðu síðan. En er þeir ætluðu að slökkva gátu þeir það ekki, hverra bragða sem leitað var. Þó menn hyggju spón úr bitanum nórði ávallt í höggfarinu. Þannig liðu nokkrir mannsaldrar að Sólheimatíran logaði þarna á bitanum. Seinast var það ráðlagt að döggva á hana sjö bræðra blóði, — og það dugði. Þessi Sólheimaskáli var mjög nafnkenndur. Um hann er þetta þulu-reikningsdæmi sem alkunnugt er:

     Sextán eru bitar í Sólheimaskála

sextán hanar á hverjum bita,

      sextán hænur með hverjum hana,

     sextán ungar með hverri hænu.

Sólheimaskáli var til þegar þeir bræður komu að Sólheimum, Sveinn aðministratus og Eyjólfur, synir Alexanders í Skál Sveinssonar ríka í Holti á Síðu Alexanderssonar, en þá minni en áður. Var þá lægð í einum bitanum sem sagt var væri eftir Sólheimatíru. Gamli Ólafur á Sólheimum sem lifandi var 1827, þá um áttrætt,¹ heyrði sagt af þessari tíru, en mundi þó ekki eftir að honum hefði verið sagt hvenær hún slokknaði.

(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 3, bls. 463).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.