Spegillinn

Huldukona felur spegil fyrir prestskonunni á Skógum

Séra Ólafur Pálsson, afi séra Ólafs Pálssonar dómkirkjuprests, var prestur til Skóga undir Eyjafjöllum 1797-1835 og dót 1839. Hann bjó á Hólum. Síra Ólafur var kvæntur en þess er ekki getið hvað kona hans hét. Um þær mundir voru speglar mjög fátíðir og þótti prestskonunni því mjög vænt  um vasaspegil sem hún átti og einhver hafði gefið henni. Einu sinni hvarf spegillinn þaðan sem prestskonan geymdi hann og vissi enginn hvað af honum hafði orðið. Hún leitaði að speglinum í öllum kistum og kistlum sem mögulegt var að hann gæti leynst í en hann kom ekki í leitirnar. Prestskonunni kom nú  til hugar að speglinum mundi hafa verið stolið en hún grunaði þó engan því að allt fólk þar á heimilinu var ráðvant mjög.

Nú líður fram undir ár og spyrst ekki til spegilsins. Prestskonan átti öskjur og geymdi hún í þeim skaut sitt og handlínu. Hafði hún margleitað í öskjunum og gat spegillinn því alls ekki dulist þar. Um haustið ætlaði prestkonan að vera til altaris, eins og siður var til, og tók skaut sitt og handlínuna upp úr öskjunum en þegar hún flettir henni í sundur dettur spegillinn innan úr henni ofan á gólf og mölbrotnaði. Öllum bar saman um að huldukona hefði gert prestskonunni þann grikk að bora speglinun innan í handlínuna, því að hún mundi hafa séð ofsjónum yfir að hún átti slíkan grip.

Eftir sögn Þorsteins Erlingssonar (1858 – 1914) frá Hlíðarendakoti, 1883

(Íslenskt þjóðsagnasafn. 4. bindi. 2000. Ólafur Ragnarsson, Sverrir Jakobsson og Margrét Guðmundsdóttir sáu um útgáfuna. Rv., Vaka-Helgafell. s. 232-233)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.