Starkaðsver

Á afrétti Gnúpverja er ver (mýrlendi) sem kallað er Starkaðsver. Það er fyrir innan Skúmstungnaár báðar.¹ í verinu er einstakur steinn sem heitir Starkaðssteinn. Þessi nöfn kvað koma af því að maður í Norðurlandi sem Starkaður hét átti unnustu á Skriðufelli í Gnúpverjahreppi og lagði einn af stað suður gangandi um hávetur að finna hana. Hana dreymdi eina nótt um veturinn að þetta var kveðið á glugga hennar:

 

Angur og mein fyri auðar rein

oft hafa kappar þegið.

Starkaðs bein við stóran stein,

um stund hafa þau þar legið.

 

Um vorið fannst lík Starkaðar hjá steininum. Bragarhátturinn við vísuna sýnist benda til þess að sagan eigi að tilheyra þeim yngri þó mannsnafnið líti meir til hins gagnstæða. Að bær hafi verið í Skúmstungum halda færri. Ekki er hægt að vita hvort þar hafa verið rústir, því Þjórsá hefir brotið sig þar vestur í krókinn. Annars er engin sögn um orsök þess örnefnis.

(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 3, bls. 305).

.

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.