Sundriðið til hafs

Kunnuglegur maður og hestur sáust á fjörunni
Helgi Þórarinsson  bóndi í Þykkvabæ átti gráan hest, mikinn gæðing. Þegar klárinn var orðinn það hrumur að fella varð hann, þá var Helgi búinn að járna hann áður.Var hann svo heygður með öllum reiðtygjum, nýjum,  og breitt teppi yfir. Ekki veit ég nú hvar gröfin er. Svo þegar Helgi var dáinn þá sáu menn hann nú náttúrulega á Grána.

Ég kann sérstaklega eina sögu af því sem Helgi Eiríksson á Fossi sagði mér. Þeir voru saman að vori í afskaplega góðu veðri suður hjá Veiðiós hann og Matthías Stefánsson frá Fossi, sem þar bjó. Svo þegar þeir eru þarna á fjörunni við ósinn þá sjá þeir allt í einu að það kemur maður ríðandi vestan fjörur og stefnir heldur norðar en þeir. Þeir færa sig nú svona í flútt við að komast í stefnu hans og héldu nú kannski að þessi maður mundi hafa tal af þeim. Hann fer mjög nálægt þeim og sáu þeir að þetta var skeggjaður maður á gráum hesti. En hann gerir enga tilraun til þess að kalla neitt til þeirra heldur ríður beint út í ósinn. En þegar hann kemur fram í miðjan ós þá snýr hann hestinum við og til sjávar og klárinn syndir með hann suður, þangað til áin mætir sjónum. Þá rís alda og hann hverfur þeim sjónum og þeir sjá hann ekki meir. “Og ég þekkti nú bara nafna minn þarna” sagði Helgi Eiríksson.

(Eftir sögn Vilhjálms Eyjólfssonar á Hnausum í Meðallandi. Guðmundur Óli Sigurgeirsson skráði, feb. 2000. Óbirt handrit geymt á Héraðsbókasafninu á Kirkjubæjarklaustri)

 

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.