Huldukonan í Háu-Kotey

Huldufólksbyggð var talinn vera í hólum við Háu-Kotey í Meðallandi. Hér segir Einar Sigurfinnsson (1884-1979) sem ólst upp á bænum frá reynslu sinni af því.

Hólar voru við Háu-Kotey sem móðir mín tók okkur vara á að láta illa á. Þegar ég var strákur innan við fermingu í Háu-Kotey var þar brunnur sem sótt var vatn í, en hann þótti ekki góður þar sem í vatninu í honum var járnlá sem kölluð var. En í svokölluðu Bóli, skammt frá bænum, þar var annar brunnur sem notaður var til að vatna skepnum í, vatnið í honum var tært og gott, alveg eins og uppsprettuvatn. Þangað var sótt vatn bæði í ketilinn og í mat, það var á hverjum degi sem sóttar voru í hann ein eða tvær fötur. Ég fór snemma til þess að sækja þetta fyrir mömmu.

Það var einu sinni eitt kvöld, um vetur, að ég stökk út að Lágu-Kotey sem oftar, það var örstutt frá. Það var snjór yfir öllu og stór fannskafl sunnan undir bænum í Háu-Kotey. En þegar að ég kem utan frá Lágu-Kotey, á heimleiðinni, þá sé ég kvenmann koma sunnan að Bóli með fötur, sína í hvorri hendi. Ég tel víst að þetta sé mamma. Og þegar að ég kem heim, þá segi ég: ,,Þú þurftir ekki að fara að sækja vatnið, mamma mín, ég ætlaði að gera það eins og ég er vanur.“ ,,Ég var ekki farin til að sækja það ennþá, væni minn,“ segir hún. Þá segi ég: ,,Ég sá einhvern kvenmann koma sunnan að Bóli með fötur, og hún hvarf hérna við stóru fönnina sunnan við kálgarðinn og ég sá hana ekki meir, og ég hélt endilega að hún væri þú.“ Ég veit ekki hvernig á þessu stóð, það hafa víst verið einhverjar grillur í augunum á mér. En ég fór síðan með fötur úti í Ból að sækja vatnið um kvöldið eins og ég var vanur, og varð ekki neins var.

Eftir sögn Einars Sigurfinnsonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í nóvember 1967 (SÁM 89/1735) sjá: https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1005907

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.