Fjaran við Þykkvabæ er nú þekktust fyrir strand Vikartinds árið 1997 en þar varð á fyrri tíð oft vart sjóskrímsla. Voru það einkum fjörumenn sem urðu þeirra varir, en svo voru kallaðir þeir karlar sem gengu fjöruna í leit að reka. Guðmundur Runólfsson bóndi í Búð í Þykkvabæ (1853-1899) fór einu sinni á fjöru við annan mann, gekk hann austur en hinn vestur. Gekk Guðmundur þá fram á ókind ferlega sem leitaði á hann. Varð hann að vonum þeirri stund fegnastur þegar hann komst aftur til félaga síns. Allmargir urðu varir við ókind þessa í fjörunni og kölluðu hana sjóskrímsli.
(ÁÓ 1962, 262).