Gamla fólkið vildi ekki nota tré eða muni úr kirkjum í íbúðarhús sín, þótti standa óhöpp af því og oft umgangur ósýnilegra vætta, sem spilltu heilsu manna og hræddu börn. Um aldamótin 1900 var þessi hégilja dáin út.
Dyrhólakirkja var rifin 1901-2, og eigandi hennar, Halldór Jónsson kaupmaður í Vík, tók aðalinn af timbrinu til sín og lét byggja úr því hjall, áfastan íbúðarhúsinu í Vík. Altarisskápinn setti hann í búrið og notaðist hann til að setja í matarílát.
Í hjallinum tók strax að bera á einhverju undarlegu. Högg og umgangur heyrðust á hjallloftinu, þó enginn væri þar á ferð sjáanlegur. Fyrst hélt fólkið að þetta væri sveimurinn, sem að gömlu lagi átti að halda til í norðurheyhlöðunni, en nú var hlaðan rifin, og hann hefði flutt sig á hjallloftið. Þessu var þó ekki þannig varið, sveimurinn úr gömlu hlöðunni hafði öllu heldur flutt sig í smiðjuna, sem byggð var norðan við íbúðarhúsið, þar í gamla bæjarstæðinu.
Í hjallinum var eitthvað annað og nýkomið. Brauk og braml þar var stundum svo að fólkið vaknaði við, sem svaf í íbúðarhúsinu. Barst stundum þetta skraml inn á hanabjálkaloftið í sjálfu íbúðarhúsinu. Ekki sáu menn þetta né urðu fyrir árás af því, en eitthvað fylgdi kirkjutimbrinu.
Þá var altarisskápurinn ekki óbyggður. Stúlkurnar, sem voru við matartilbúning við hann, sáu oft, að maður, óþekktur, stóð við skápinn en hvarf, þegar á hann var horft. Á kvöldin sást hann tíðast, þegar einhver ein stúlka var seint að þvo upp og laga til í eldhúsinu, einnig snemma morguns. Mörgum stúlkum, sem í Suður-Vík voru, bar saman um þetta og féll hálf illa að vita af sveimi þessum, þó aldrei ásækti hann neinn. Þetta mun þó hafa farið smádofnandi.
Sagnir kvenna og karla, er þá voru í Vík. (Þjóðsögur og þættir úr Mýrdal/Eyjólfur Guðmundsson frá Hvoli; Þórður Tómasson fr. Skógum bjó til prentunar. Reykjavík: Örn og Örlygur, 1981. Bls. 97-98)