Festahringur í Seglbúðum

Hér segir Þórarinn Helgasson (1900-1978) bóndi og fræðimaður frá Þykkvabæ í Landbroti frá festahringi sem lengi var i bergi við Seglbúða og gerir grein fyrir kenningum sínum um landnám í Landbrotinu. 

Það eru munnmæli um það að það hafi verið skipagengt upp að Seglbúðum og þar hafi fundist festahringur í bergi. Ég heyrði elstu menn nafngreina manninn sem hafði tekið þennan festahring og notað hann til að smíða úr honum. Og í Landnámu segir frá manni sem tók land í Sýrlækjarósi og bjó á Hörgslandi. Sýrlækur er skammt frá Eystra Hrauni og rennur í Grænlæk, hefur örugglega áður fyrr verið stórvatn.  Þá hefur Skaftá kvíslast hérna niður úr Landbroti í mörgum kvíslum og ein stórkvíst, maður sér merki þess, hefur fallið í þennan Sýrlæk. Hann er nú orðinn uppsprettulækur en hefur áður verið jökulvatn úr Skaftá samanber þetta heiti, Sýrlækur, sem vísar í sýru eða jökullitinn. Það er ekkert því til fyrirstöðu að þetta hafi verið skipageng á, upp að þessum Sýrlækjarósi sem er skammt frá þeim stað þar sem festahringurinn fannst í þessu bergi.

Maður hefur engar heimildir um komur landnámsmanna hér á þessar slóðir nema þennan sem nam land í Sýrlækjarósi og bjó á Hörgslandi. En það er spurning hvort að átt sé við Hörgsland á Síðu eða hvort að það hét ekki bara áður fyrr Hörgsland, þarna skammt frá Sýrlækjarósi, þar sem nú eru bæirnir Hraun. Tjörn er þarna í túninu á Eystra Hrauni, stór og djúp, og hún heitir Hörgslanda. Það er undarlegt að tjörnin beri þetta heiti nema ef eitthvað annað þarna hefur borið það. Mögulega hefur þessi landnámsmaður búið þarna, við þessa tjörn sem að ber þetta heiti.

Sögn Þórarins Helgasonar (SÁM 84/63-64). Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í júní 1964 sjá https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001057

og https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001058

 

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir á Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.