Hér segir Þorbjörn Bjarnason (1895-1971) frá Heiði á Síðu frá Árna Gíslasyni (1820-1898) sýslumanni sem bjó á Kirkjubæjarklaustri og Holti á Síðu á seinna skeiði 19. aldar og þótti umdeildur. Í fyrstu frásögninni hefur sögumaður líklega slegið saman nöfnum Árna allrafrænda og Vigfúsar geysis föður hans, en það var sá síðarnefndi sem varð úti á Hunkubakkaheiðinni sem frá segir í öðrum sögum.
Árni sýslumaður Gíslason bjó á Kirkjubæjarklaustri og Holti á Síðu og var mjög ríkur maður. En í sveitinni bjó fátækur maður sem hét Árni og var kallaður allrafrændi. Nú kemur hann og biður um gistingu en Árni sýslumaður vísar honum í burtu og segir að hann geti farið á næsta bæ. Það var útsynnings éljagangur og slæmt veður. Árni fer og villtist á leiðinni og fannst ekki fyrr en um vorið. Hann fannst þannig að kona Jóns Pálssonar á Hunkubökkum dó. Og svo þegar hún var jörðuð, þá uppgvötast á miðri Klausturheiði að það hafði gleymst að setja í kistuna jaxl sem hún hafði tapað og hafði beðið um að væri settur í kistuna með sér. Svo að maður einn sneri aftur til að sækja jaxlinn en þá reið hann fram á Árna dauðann austan í Bakkaheiðinni. Þetta var dálítið einkennilegt atvik.
Árni átti nokkur naut sem hann hafði í hagagöngu úti í Skaftártungu, í Ásakvíslum. Um haustið þurfti að smala þeim og eitt var mjög mannýgt. Hann sagði vinnumönnunum að reka þau upp að brekkunni og stóð sjálfur þar fyrir með járn í hendi. Nautið ætlaði í hann undir eins, en hann stakk það um leið svo að það valt dautt um koll.
Það var sagt að Páll Hansson væri sonur Árna sýslumanns. Hann átti hann með vinnukonu austan úr Öræfum sem Sigríður hét, og vildi ekki meðganga hann. En Páll var mjög skarpur maður og skemmtilegur. En það endaði með því að hreppurinn vildi losna við hann, hann átti þá nokkuð mörg börn, og hreppurinn kostaði hann til Ameríku og þar bjuggu þau og vegnaði vel.
Sagnir Þorbjarnar Bjarnasonar (SÁM 90/2300). Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í júní 1970 sjá https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1012349 og https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1012351