Þorsteinn Magnússon frá Espihóli, sýslumaður Rangvellinga, bjó að Móeiðarhvoli og var jafnan talinn með hinum vitrustu og mestu sýslumönnum. Valgerður er nefnd kona hans, Bjarnadóttir sýslumanns hins ríka á Skarði, afar ágjörn og miskunnarlaus við snauða menn, að talið er. Er það eitt til dæma talið, að eitt sinn væri hún á þingi með Þorsteini sýslumanni, manni sínum. Var það þá, að ekkja ein snauð með tíu börnum hafði það eitt í þinggjald, að hún tók brekan ofan af rúmi sínu, flutti á þing og hugði að gjalda sýslumanni og kvaðst eigi annað hafa. Sýslumaður sagðist eigi brjóst til hafa að taka það af henni. Er þá sagt, að kona hans gripi það til sín og segði:
„Nógu er það gott fyrir skarnleppa undir börnin þín!“
Það bar við eitt kvöld á Hvoli um haust, að farandkonu var lofað að vera, en um nóttina brann bærinn allur, en allt fólk komst af. Brann baðstofan svo gersamlega, að ekkert var eftir, nema sekkur lítill kerlingar fannst óbrunninn í baðstofuhorni og stafur hennar. Þeim, er nærstaddir voru brennunni um nóttina og þegar dagaði, heyrðist það mælt í hrífu inni í eldinum:
Í eldinum heyrðist: “aldrei nóg”, sem uppbrenndi á Hvoli. Af samandregnum sýsluplóg sást ei eftir moli
Það er sagt, þá er Þorsteinn sýslumaður var andaður, tæki kona hans ógleði mikla, svo að varla neytti hún svefns né matar. Kom svo, að prestur hennar bað hana segja sér, hvað hana hryggði, var hún lengi treg til þess, áður hún kvað sig dreymt hafa, að maður sinn kæmi að sér og segðist nú vera í fordæmdra stað sakir henn- 20 ar. Taldi prestur þá hug í hana, kvað draum þann af þungum hyggjum hennar. Er og sagt hún bætti mikið um ráð sitt, hefði við fégirnd miklu minni og væri betri snauðum mönnum.
Eftir Gráskinnu Gísla Konráðssonar.
Jón Þorkelsson. 1956. Þjóðsögur og munnmæli. Bókfellsútg. Rv. s. 19-20